loading

Planning & The Urban Context

June 15, 2016·by ivar·in Architecture & The City

Við eigum að endurskipuleggja miðborgina út frá heildarhönnun

Miðborgarblaðið / Morgunblaðið 2004, sept

Flestir arkitektar landsins hafa hugmyndir um það hvernig best sé að endurskipuleggja miðborg Reykjavíkur. Einn þeirra er Ívar Örn Guðmundsson, sem vill sjá betri borg um leið og hann leysir umferðarvandann.

Um allan bæ er fólk sem hefur hugmyndir um hvernig best sé að gera miðborg Reykjavíkur aðlaðandi. Það sást best þegar Landsbankinn hélt samkeppni um slíkar hugmyndir. Ein af þeim hugmyndum sem þar komu fram, var nokkuð byltingarkennd, og náði yfir alla miðju þess svæðis sem við köllum miðborg. Hugmyndasmiður hennar var arkitektinn Ívar Örn Guðmundsson sem rekur stófu sína Nexus við Laugaveginn. Þegar hann er spurður hvers vegna hann hafi sent hugmyndirnar inn í keppnina í stað þess bara að leggja þær fyrir borgaryfirvöld, segir hann þær einfaldlega hafa verið hugmyndir og þetta hafi verið hugmyndasamkeppni.

 “Það kostar gríðarlega peninga að útfæra þær hugmyndir sem eg er með og væri óðs manns æði að leggja út í þann kostnað án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að yfirvöld vildu fjárfesta í henni.”

En þú hefur samt pælt mikið í því hvernig breyta má miðborginni.

 “Já, ég hef mikinn áhuga á miðborginni. Ég held að það sé alveg sama hvort það er sveitarfélag, arkitekt eða leikmaður, svo lengi sem áhugi er fyrir miðborginni, er áhugi á því að gera hana betri.”

Aðlögun að óskum þegnanna

“Það hefur átt sér stað uppbygging á miðborgum um allan heim og það er hægt að læra töluvert af þeirri uppbyggingu. Það er engin ný stærð að borgir séu byggðar við vatn, úti á nesi. Það er ekki heldur ný stærð að lítil borg sé að vaxa upp stóra borg. Vandamálin sem koma upp eru alþjóðleg vandamál og þau ber að leysa. Lausnin getur annað hvort verið lausn á vandamáli, eða aðlögun að óskum þegnanna sem búa í borginni. Sjálfur vil ég ekki horfa á þetta sem vandamál, heldur sem aðlögun að óskum borgarbúa. Ég vil helst ná því að skipuleggja svæðið sem heild. Það hefur verið gagnrýnt hér að í skipulagi miðborgarinnar sé verið að fókusera á of litla hluti, á of lítil verkefni hverju sinni. Alls staðar í heiminum er unnið út frá svokölluðum “urbanisma,” sem við getum bara kallað þéttbýlishönnun. Þá eru unnar útlínur þess svæðis sem gera þarf skipulag á. Áður en kemur að skipulaginu, þarf aðf að ræða hvernig á að hanna þetta þéttbýli. Þetta er stundum kallað rammaskipulag og er hugmyndafræðin að heildinni. Síðan eru skoðaðir reitir sem á að byggja á, til dæmis Tónlistrahús, Landsbanka og fleira. Þessa þéttbýlishönnun finnst mér vanta í miðborgina.
Þegar skipuleggja á reiti í miðborginni, kemur alltaf upp sama vandamálið. Það vandamál heitir umferð – og þá erum við komin hringinn, hvort kemur á undan, byggingaskipulag eða umferðin? Hænan eða eggið? Það væri eðlilegt að skoða þetta seim heild.”

Umferðin í miðbænum

“Nú segja menn að Hringbraut. Þar er gríðarlegur umferðarþungi og á ekki eftir að minnka. Maður hlýtur að spyrja sig hvernig á að vera hægt að beina þessari umferð eftir einni akrein í miðborgina, eftir Sóleyjargötu sem er húsagata. Hún er tengibraut með lágmarkshraða og einni akrein. Við förum af hraðbraut yfir á lágmarkshraðagötu. Og hvernig getum við tekið á móti allri þessari umferð í gegnum miðbæinn. Það þarf jú að tengja Hringbrautina við Sæbraut í gegnum miðbæinn. Það er engin lausn að þurfa að keyra út á Granda til þess að komast á Sæbrautina.
Ef við nú ákveðum að við viljum hafa umferðina í gegnum miðborgina, þá erum við með falleg íbúðahverfi á aðra hönd, Hljómskálagarðinn og Tjörnina á hina. Væri þá ekki gott að beintengja þetta með garði? Væri ekki eðlilegt að tengja garðinn við Fríkirkjuveg 22 við Tjörnina, sömuleiðis Iðnó – og gera þeannig heildartengingu frá Ráðhúsinu, framhjá Iðnó, í gegnum “prominade? Þá erum við að tala um að nota þennan vantsfront.”

Það má sjá útfærslur á slíkri hugmynd í Nýhöfninni í Kaupmannahöfn, við Thamesána í London og á Signubökkum í París. Í þessum hugmyndum geng ég út frá tveimur grundvallarhugmyndum. Ég ætla að gera bæinn betri og leysa umferðarvandamál. Þetta tvennt þarf alltaf að leysa saman. Lausnin getur verið sú að lækka Sóleyjargötuna jafnt og þétt og gera brú yfir hana, þannig að krakkar geti farið í Hljómskálagerðinn án þss að þurfa að fara yfir götuna. Þá er garðurinn ekki bara notaður fyrir aðkomufólk, heldur líka þá sem búa í hverfinu.”

Ekki neðanjarðargöng

Hvað viltu lækka götuna á löngum kafla?

 “Frá Hringbraut að Vonarstræti, með tveimur akreinum. Síðan gæti önnur þeirra opnast við Lækjargötu, þar sem er hægari umferð, en hin haldið áfram að Sæbraut. Þetta er bara dæmi um það hvernig við getum skoðað bæinn okkar sem heild.”

Yrði kostnaðurinn af þessu ekki dálítið mikill?

“Það kostar allt peninga, en þetta er spurning um það hvort við viljum geta upplifað miðborgina okkar sem heild um aldur og ævi, eða viljum við að hún sé hraðbraut?”

Þú ert líka með hugmyndir að svæðinu sem ætlað er fyrir tónlistarhús, hótel og banka, hinum megin Lækjargötu.
“Já. Eg hlýt að spyrja: Hvernig væri að leysa tónlistarhúss- hótel-, Landsbanka- og önnur byggigamál með því einfalelga að gera svokallað “plaza,” það er að segja, hækka byggingasvæðið um eina hæð eins og tíðkast víða erlendis. Undir þessu “plaza” yrðu áfram götur og gangtígar.
Það hafa mjög margir skoðanir og hugmyndir um fyrirhugað tónlistarhús. Það er algengt að fólki finnist ómögulegt að það eigi að skilja bygginguna sem fyrirhuguð er frá miðbænum og það eigi að vera neðanjarðargöng yfir í hana.
Ég á nú bara eftir að sjá fólk ganga í gegnum göng til þss að komast að húsinu. Ég segi fyrir mig, að ég mundi ekki vilja bjóða fólk sem eg byði á huggulega tónleika að labba í gegnum göng. Ég vil sjá Torgið lagskipt og að þar yrði gengið upp á þetta “plaza” Lækjartorgið yrði þá upphafið af því upplifelsi sem nýjar og spennandi bygginar eru. Ef við lagskiptum svæðinu frá höfninni að Hafnarstræti, og látum Lækjargötuna leiða upp að þessu “plaza,” þá erum við búin að leysa þann vanda að gera miðborgina að spennandi upplifelsi, fremur en útfærslu á umferðarlausn.

Fyrst koma hugmyndirnar

Það væri gaman að sjá myndir af því hvernig þú hugsar þetta.

 “Já, en því má ekki gleyma að fallegar myndir eru ekki endilega það eina. Þær eru ágætar sem slíkar en yfirvöld ættu frekar að einbeita sér að því að skoða góðar hugmyndir.
Eg hef búið og starfað mikið erlendis og haft sérstakan áhuga á því hvernig borgir “þroskast.” Og það er sama hvort við erum í Santa Barbara í Bandaríkjunum, London eða Turnbridge Wells í Bretlandi, þá komum við öll frá því að hafa verið lítil einhvern tímann.
Reykjavík hefur þroskast frá því að vera lítill bær með einni verslunargötu, sem er ennþá aðalverslunargata landsins. Hún liggur hér og því verður ekki breytt. Hún liggur í austur og vestur, sem þýðir að það eru skuggar á henni. Við eigum alla möguleika á að gera þéttbýlishönnun á Laugaveginum. Það er lag núna vegna þess að það er mikið af hálfónýtum gömlum húsum hér og fólk er að reyna að kaupa upp svæðið. Og ég er ekkert einn um að velta þessu fyrir mér. Ég var að skoða hugmyndir sem Páll Hjaltason ariktiekt var með um svæðið á milli Laugavegar og Hverfisgötu, frá Ingólfsstræti að Snorrabraut. Mér fannst hans hugmyndafræði mjög skemmtileg.
Ein af hugmyndum hans var sú að við þyrftum að leysa bílastæðavandamálið í miðborginni með því að koma upp mörgum litlum bílastæaðasvæðum í stað þess að byggja nokkur bílahús. Það þarf að vera hægt að ganga inn í allar verslanir af götunni og restina eigum við að nýta í íbúðarhúsnæði.”

Verslunin þarf stuðning íbúanna

Þegar við skoðum ýmis hverfi í London, til dæmis Chelsea, þá er sá staður fullur af verslunum við götuna sem vegnar vel og síðan er fullt af fólki á öðrum hæðum. Það verslar í búðunum í hverfinu og það er alveg sama hvort við erum í London, París, New York, eða Reykjavík, verslunin þarf stuðning íbúanna til þess að vel gangi. Um leið og við erum að þétta byggðina, erum við að laga verslunina að kröfum nútímans, að því leyti að það er gengið inn í þær beint af götunni, í stað þess að fara upp tröppur eða stiga.”
Það er nú ekki mikil hrifning yfir því hér að rífa gömul hús.

 “Enda eigum við ekki að rífa þau öll, bara afþví að þau eru gömul Það eru hús við Laugavegin sem eru stöndug og glæsileg. Við eigum að halda þeim sem uppfylla þau skilyrði sem þarf til þess að hægt sé að nýta þau sem verslunarhús. Sum húsin við Laugaveginn eru bara hálfónýt. Við eigum að rífa þau og reisa í stað þess ný hús sem uppfylla nútímakröfur. Víða erlendis sér maður verslunargötur eins og Laugaveginn tengjast stórverslunum, til dæmis Illums Bolighus við Strikið í Kaupmannahöfn og Harrods við Knightsbridge í London – og ekki síður í minni bæjum, en þetta vantar alveg hér. Með þessu móti verða stórverslanirnar stuðningsverslanir við þær litlu. Litlar verslanir í litlum húsum lifa betur ef stuðningsverslanir eru í kringum þær.”

Undir þak

Hafa ekki líka komið fram hugmyndir um að byggja þak yfir Laugaveginn?

“Þær hugmyndir eru ekkert nýtt af nálinni, hvorki hér né erlendis. Í því nægir okkur að horfa á það hvernig aðrir hafa leyst þann vanda sem við höfum við að etja hér, það er að segja, að skýla vissum svæðum fyrir veðri. Í Boston í Bandaríkjunum geturðu til dæmis gengið á milli hverfa innandyra.”

 Þú sagðir áðan að núna væri lag til þess að framkvæma þéttbýlishönnun á Laugaveginum. Verður það lag ekki áfram?

 “Nei, Málið er að núna er eitt og eitt verkefni að rísa og bara tekin afstaða til eins reits í einu. Það er ekki til nein þéttbýlishönnun fyrir miðborgina og því fleiri verkefni sem rísa á reitunum við Laugaveginn, því minni möguleika eigum við á því að hanna svæðið. Helsti vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag, hvað varðar hönnun og skipulag við Laugaveginn er sá að það er svo dýrt að kaupa upp lóðir með ónýtum eða hálfónýtum húsum hér. Þeir verktakar sem kaupa lóðirnar, verða að borga fullt verð fyrir húsið sem á því stendur, jafnvel þótt ekkert sé hægt að gera við það annað en að henda því á haugana. Það þýðir að hann þarf að byggja nógu mikið til þess að hagnast á framkvæmdinni.”

Vald íbúanna

“Síðan komum við að öðrum vanda, sem er vandi skipulagsyfirvalda. Hér fara völd skipulagsnefndar dvínandi vegna þess að nágrannar nýbygginga hafa svo mikil völd. Þetta er alveg einstakt í heiminum. Ég bjó einu sinni í New York í stórri íbúðablokk og þótt íbúðin mín væri björt, skein aldrei sól inn í hana. Vinur minn, sem bjó annars staðar í blokkinni, sneri þannig að sólin skein þar inn allan daginn. Þó kom þar að hinum megin við götuna frá honum reis sjötíu hæða hús og hann gat ekk haft neitt um það að segja – og hefði heldur ekki borgað sig fyrir hann, því að í húsinu sem reis var mikil starfsemi, meðal annars stærsta kvikmyndahús borgarinnar – og þarna var iðandi mannlíf alla daga. Íbúð vinar míns margfaldaðist í verði. Hvað átti hann að gera? Fara í mál við borgina? Hefði ekki veirð eðlilegra að verktakinn sem byggði sjötiu hæða húsið krefðist þess að fá hluta af söluandvirðinu ef vinur minn seldi íbúðina sína?
Svona uppbygging hefur svo margar hliðar og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir, eða vilji sjá, þær jákvæðu afleiðingar það getur haft að ný hús rísi. Að minnsta kosti skil ég ekki hvernig skipulagsyfirvöld hér hafa getað afsalað sér því valdi sem þau hafa yfir til íbúanna.”

Share this Post

Comment

Tags