loading

Laugavegurinn

June 15, 2016·by ivar·in Architecture & The City

FRAMTÍÐ LAUGAVEGARINS

Fyrir daginn í dag – og framtíðina

Morgunblaðið – jan. 2008

Allt frá endurreisnartímabilinu hafa menning, listir og byggingarlist endurspeglað hvað annað. Það er undarlegt að vilja brjóta þá hefð upp núna. Hvers konar samhengi er í því að kunna vel að meta ný-list en vilja einungis byggja í sögu-stíl?

Allt frá endurreisnartímabilinu hafa menning, listir og byggingarlist endurspeglað hvað annað. Það er undarlegt að vilja brjóta þá hefð upp núna. Hvers konar samhengi er í því að kunna vel að meta nýlist en vilja einungis byggja í sögustíl? Það er líka allt annað en að búa í gömlum húsum sem ég skil vel. Þá eru andstæðurnar góðar saman en ekki sögufölsun úr samhengi við samtímann.“

Á þennan veg talar Ívar Örn Guðmundsson arkitekt en hann hefur verið fylgjandi því að láta rífa húsin á Laugavegi 4 og 6.

“Ég er alls ekki á móti friðun gamalla húsa. Ég hef gert upp gömul hús og búið í gömlu húsi og ber virðingu fyrir menningu og sögu þjóðarinnar. Það þarf bara að skilgreina og rökstyðja hvaða hús á að varðveita og friða. Það er ekki nægilega sterk röksemd að húsið sé gamalt. Það þarf á einhvern hátt að vera sérstakt. Að mínu mati er það sýndarveruleiki að byggja gamaldags miðbæ í Reykjavík. Við eigum að byggja borg fyrir daginn í dag – og framtíðina.”

Hugmyndir endurreisnar

Þar fyrir utan á Ívar vont með að skilja hvers vegna nýklassíska tímabilið í byggingarlist er Íslendingum svo kært. “Alþingishúsið var fyrsta húsið sem byggt var eftir hugmyndum endurreisnar árið 1881 eða um 440 árum eftir að sú húsagerð kom fyrst fram í Evrópu. Fram að því hafði lítið gerst hér í byggingarlist. Torfbærinn var látinn nægja en eina markmiðið með þeirri húsagerð var að skýla fólki fyrir veðri og vindum. Við rétt náðum í skottið á nýklassíska stílnum og nýttum hann helst í okkar eigin timburklassík en hann var ekki ráðandi hér á landi nema í um hálfa öld, fram til 1930. Hvers vegna gömlu timburhúsin sem byggð voru á þessum tíma eru merkilegri en önnur hús skil ég ekki. Hvers vegna slá menn ekki frekar skjaldborg um byggingar sem risu frá fjórða til sjöunda áratugar síðustu aldar? Þær hafa margar hverjar miklu meira byggingarsögulegt gildi.”

Ívar kveðst í mörgum tilvikum hlynntur því að götulínu sé haldið en stæling á fortíðinni sé óráð.

“Í undantekningartilvikum getur þetta átt við en að byggja heilu hverfin í húsagerð sem stóð stutt og er löngu gengin sér til húðar er ekki skynsamlegt. Byggingarlistasaga okkar Íslendinga er svo stutt og í raun má segja að við séum stödd í henni miðri. Hvers vegna ættum við þá að horfa um öxl? Ég er sannfærður um að framtíðin á eftir að leiða í ljós að þeir tímar sem við lifum á eru bara býsna merkilegir. Menn ættu því að leyfa sér að hafa skoðun á byggingalist yfir höfuð og þá byggingalist nútímans en einblína ekki á minjavernd. Við lifum ekki á minjavernd þó að hún geti í sínu besta formi auðgað umhverfið.”

Klasi gamalla húsa

Tilfærsla gamalla húsa er ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið í umræðunni síðustu daga. Ívar segir hana góðra gjalda verða og í sumum tilvikum geti hún verið frábær. “Þá er ég að tala um að flytja hús þangað sem það getur áfram verið í notkun, þ.e. ekki á Árbæjarsafnið. Ég nefni Grjótaþorpið og Skerjafjörðinn sem dæmi. Það eru nokkur gömul timburhús á Laugaveginum sem myndu njóta sín mun betur þar. Einnig væri ekki úr vegi að koma saman á einu svæði, ekki bara meðfram Laugaveginum, heldur líka á baklóðum, klasa þessara húsa, til að endurspegla sögu götunnar – svona lítið verslunarþorp við Laugaveginn.”

Ívar hvetur til upplýstrar umræðu um húsvernd og það sé hlutverk sérmenntaðs fagfólks að leiða hana, arkitekta, hönnuða, skipulagsfræðinga og félagsfræðinga.“Þessi umræða á að snúast um heildarsjónarmið og afstöðu fagfélaga um þau atriði sem skipta samfélagið mestu máli. Það þurfa alls ekki allir að vera sammála svo lengi sem raddirnar heyrast. Það rúmast fleiri en ein útgáfa af sannleikanum,” segir Ívar og bætir við að það séu viss vonbrigði að Arkitektafélag Íslands hafi ekki haft sig í frammi í umræðunni almennt.

Að áliti Ívars hafa yfirvöld brugðist að því leyti að þeim hafi láðst að setja leikreglur. Fyrir vikið verði uppákomur eins og á Laugavegi 4 og 6.

“Ef stefna yfirvalda varðandi húsvernd væri skýr hefði þessi umræða aldrei komið upp. Yfirvöld verða að ákveða hvað skiptir máli og meta hvað á að halda í og hvað ekki. Skipta einstök hús máli eða er það fyrst og fremst götumyndin? Er forsvaranlegt að færa hús að því gefnu að þau myndu njóta sín betur á öðrum stað? Nú væri æskilegt að yfirvöld nýttu sér umræðu síðustu daga til að hugsa málið í botn og marka upplýsta stefnu. Á það bæði við á landsvísu og í sveitarfélögunum, því mál Laugavegarins eiga að vera í samhengi við heildarhugmyndafræðina. Það þarf að ákvarða vogina áður en vogarskálarnar eru settar á hana. Verndun og menningarsaga skulu svo vegin á móti sjónarmiðum nútímans og framtíðarinnar um nýtingu samkvæmt fyrirfram ákveðnu vægi.”

Hann dregur þetta svo saman: “Þegar fjallað er um miðborgarmál og friðun húsa þarf einfaldlega að spyrja tveggja spurninga: Styður friðun heildarhugmyndafræði og framtíðarstefnu yfirvalda og styður hún við mannlíf og notkun viðkomandi svæðis. Við eigum svo að lúta þeim ákvörðunum sem stjórnvöld okkar taka, eftir umsagnir embættisfólksins, þó svo að hún sé ekki bundin af henni. Þannig virkar nú einfaldlega lýðræðið!”

Skotinn í Laugaveginum

Ívar hefur brennandi áhuga á Laugaveginum – er „skotinn í honum“, eins og hann orðar það. Faðir hans rak þar verslanir og sjálfur hefur hann búið þar og starfað. Ekki er ofmælt að hann hafi skoðun á hverju einasta húsi sem þar stendur. Þannig sýnir hann blaðamanni myndir sem hann hefur fengið af húsunum á Laugaveginum og rökstyður í mislöngu máli hvað gera eigi við þau. Sum eiga að vera, öðrum á að breyta, enn önnur á að færa og loks mega sum húsanna hverfa af sjónarsviðinu. Í þessu sambandi er aldur húsanna ekki aðalatriðið, að dómi Ívars.

“Laugavegurinn er hjarta Reykjavíkur og hann má muna sinn fífil fegri. Menn verða því að taka til hendinni. Að mínu mati er lykilatriði að taka tillit til hugmynda borgarbúa um nýtingu og upplifun í miðbænum. Helstu útgangspunktar ættu að vera að skapa vettvang mannlífs, nýja vídd í verslun í miðborginni, halda rýmismyndun og stærðargráðu göturýmanna og byggja í sátt við þá götumynd sem fyrir er. Nýkynntar upplýsingar um verslunarhætti í Reykjavík sýna að ef uppbygging Laugavegar sem miðdepils verslunar í lifandi miðborg á að takast þurfa að koma til stórhuga hugmyndir sem endurspegla óskir manna um mannlíf og efla á sama tíma verslun og menningarstarfsemi sem fyrir er á þessu viðkvæma svæði. Það jafnast fátt á við fallegan dag í miðborg. Maður er manns gaman og eigum við ekki rétt á iðandi mannlífi þegar aðstæður bjóða upp á það? Miðborgin á að sinna sínu hlutverki; að vera vettvangur, þangað sem borgarbúar og gestir geta lagt leið sína, með eða án erindis, einfaldlega til að vera hluti af því mannlífi sem þar þrífst.”

Miðbær þjóðfélagsins

Ívar er þeirrar skoðunar að Laugavegurinn eigi að halda hlutverki sínu og vera miðbær þjóðfélagsins á sama tíma og hann geymir menningu okkar og sögu. “Það þarf skipulagslega og pólitíska stefnu til að ákvarða að Laugavegurinn verði miðstöð verslunar og í raun okkar „aðal“ verslunargata. Það er á brattann að sækja núna en kannanir sýna að einungis 7% verslunar fer fram á Laugaveginum. Þetta hlutfall gæti verið miklu hærra endurheimti gatan þá töfra sem hún hefur í huga flestra Íslendinga. Svo það geti orðið er breytinga þörf. Því miður uppfylla sum af þeim húsum sem eru á Laugaveginum nú ekki þarfir fólks fyrir verslun í dag.”

Ívar vill setja markið hátt. “Laugavegurinn á ekki bara að keppa við aðra verslunarkjarna á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig við verslun í stórborgum heimsins, s.s. verslunargötur Kaupmannahafnar, Lundúna, Parísar og New York sem og netverslun með öllum sínum möguleikum. Þess vegna er mikilvægt að skoða stórhuga hugmyndir og læra af því sem vel hefur heppnast annars staðar í heiminum og fella það að okkar aðstæðum. Varðveisla á svo að snúast um það sem mönnum þykir nógu sérstakt í samhengi við framþróun borgamyndarinnar. Þannig mun gott batna.”

 

 

LAUGAVEGURINN-Stip-ICON

View Presentation

Share this Post

Comment

Tags