loading

Ábyrgð Arkitekta

June 9, 2016·by ivar·in Reflections & Thoughts

ÁBYRGÐ ARKITEKTA Á HINU BYGGÐA UMHVERFI 

 


 

CITYsupper-II


#1    UM SAMSKIPTI ARKITEKTA OG HINS OPINBERA

 

Ástæða þessarar víðfeðmu samantektar um starfsumhverfi arkitekta, er að á síðustu misserum hefur pólitískur fulltrúi, sem situr í umhverfisnefnd Alþingis, okkar æðstu valdastofnunar, verið að gefa út skoðun sína á því hverjir eigi sök á því hvernig íslenskt borgarumhverfi lítur út. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að fólk lýsi skoðun sinni, hvert heldur hún mætti teljast að einhverju „rétt“ eða „röng“, eða jafnvel á gráu svæði þar á milli. Það er nú einfaldlega þannig, að yfirleitt gefast margar „réttar“ niðurstöður í því hvernig umhverfi okkar er mótað, en svo þarf þá kannski líka að skilgreina betur í þessu sambandi hvað það er sem er „rétt“ og „röng“ ákvörðun.  Einnig má segja að ákvarðanir séu líka auðveldlegar dæmdar eftir á og fer sumum það ágætlega og er þeim þá mögulega einnig tamara að skilgreina það hvað er „vond“ ákvörðun og jafnvel hver „sökudólgurinn“ er.

Já, það er gott og auðvelt að vera vitur eftir á !

Prins nokkur Charles hafði sig mikið frammi í kjölfar bókar hans „A Vision Of Britain“ árið 1988. Þessi pólitíski fulltrúi er ekki prins og alls ekki sérfræðingur á því sviði sem hann tjáir sig um í þessu tilfelli.  Hann á það þó sameiginlegt með prinsinum og svo mörgum öðrum að hafa komið auga á að margt í hinu byggða umhverfi, hefði mátt betur fara og ætti helst að finna nýjar og betri aðferðir til að svo megi verða.  Þeir eiga það þó líka sameiginlegt, að hafa af því er virðist bjagaða mynd af orsökum þessa og enga þekkingu á mögulegum lausnum, enda hefur eftir að á þá staðreynd var bent, allavega prinsinn ekki tjáð sig frekar um arkitektúr.

Mögulega er þessi annars eflaust ágæti alþingismaður ekki tilbúinn til þess að hlusta á þá sem best til þekkja, þó þeir hafa setið yfir umfjöllunarefni þessu og hafi fundið ástæðu til að gera við það uppbyggjandi athugasemdir. Athugasemdir sem mögulega mættu leiða til umgjarðar þess og starfsumhverfis sem hjálpað gæti til við að gera hið byggða umhverfi betra í framtíðinni !

Til að gera langa sögu stutta, þá er hér um að ræða þrjá hluti;

  1. Að félag arkitekta á íslandi, sem telur um og yfir 300 félagsmenn, né nokkur félagsmaður fyrir þeirra hönd, hefur haft beinan aðgang að vinnslu á frumvarpi til skipulags- og byggingalaga, sem var á haustmánuðum 2010 til umfjöllunar hjá Umhverfisnefnd Alþingis. Félagið hefur þó gefið sér tíma til að yfirfara vandlega þetta frumvarp og gera við það, það sem það telur eðlilegar athugasemdir um það sem félagsmenn þeirra hafa bæði þekkingu og reynslu til að hafa afstöðu til og rökræða. Hafa þeir skýrt þessa afstöðu sýna með rökum, bæði fyrir Umhverfisráðherra og svo í „dóm“ fólks, sem valist hefur í nefnd til að fjalla um þessi lög.       Lögin eru, að áliti arkitekta og félags þeirra, mein gölluð og ætti því að vera eðlilegt að þeir aðilar sem starfa einna helst á þessum vettvangi geri athugasemdir um lögin sjálf, en ekki bara reglugerðina sem á að styðja við lögin og skýra.
  2. Að þegar arkitektar fengu loksins aðgang að þeirri nefnd sem fer með þessi mál sem var nokkrum árum of seint að áliti arkitekta, fengu þeir verulega þröngann tímaramma til að kynna afstöðu sýna og var hann þó einnig þrengdur um helming, þar sem ofangreindum nefndarmanni fannst ástæða til að því sem virðist, nota tímann til að úthúða heilli starfsstétt, en ekki bara það heldur að dæma svo að arkitektar einir séu þeir sem séu sekir um að umhverfi okkar sé eins „vont“ og raun ber vitni. Mikilvægast er þó það, að þar sem nefndarmaðurinn hefur vald til að gera eitthvað eða ekkert, með athugasemdir arkitekta á frumvarpsgerðina, hefur hann á sama tíma tekið sér vald til að dæma um gæði umhverfis okkar og líka því hver beri sök á því sem miður fer. Nokkuð mikið vald það ! og kannski ábyrgð !
  3. Að mögulega þyrfti að skýra betur hversu flókið ferli það er sem vettvangur byggingariðnaðarins er sem hér er um fjallað. Í því framhaldi er svo hægt að skoða hvers sökin er, en ekki síður hvers er að bæta þar úr og hvernig. Í því samhengi er enginn undanskilinn og þar með talið arkitektar á íslandi.

 

 UM BYGGINGARIÐNAÐINN Í HEILD SINNI

 Til að skýra þetta betur fyrir bæði nefndarmanninum og umhverfisnefnd allri, þá er hér á eftir gerð tilraun til að telja þá aðila upp, sem hafa með starfi sínu eða embættum áhrif á það sem byggt er; hvort heldur eru einstök hús, samgöngumannvirki eða allt okkar manngerða umhverfi, og stutta skýringu á hlutverki þeirra. Áhrif aðilanna eru að sjálfsögðu mis mikil og hér ekki gerð tilraun til að ákvarða hlutfall ábyrgðar, heldur að benda á og reyna að skýra hversu flókin tilurð hins manngerða umhverfis er orðin og það í hvaða samhengi þyrfti að skoða ábyrgðarhlutdeild aðilanna.

 

Helstu ábyrgðaraðilar hins manngerða umhverfis:

 ALÞINGI:

-Samþykkir lög um skipulags-, samgöngu-, umhverfis- og byggingamál

-Fjallar um og gefur út reglugerðir til stuðnings þessum lögum

-Almennur áhugi pólitískra fulltrúa er mikilvægur í umræðu um umhverfið og gæði hönnunar og þekking á málefninu kæmi sér eflaust vel

-Umhverfisnefnd starfar til yfirferðar og umræðu á frumvarpi til laga

-Á Alþingi eru teknar mikilvægar ákvarðanir um forgangsröðun verkefna

UMHVERFISRÁÐUNEYTI:

-Undirbýr frumvarp til laga um skipulags- og byggingamál

-Fer með umsjón um umhverfismál og því einnig alls hins manngerða umhverfis

-Mikilvægt að þekking úr umhverfi starfandi aðalhönnuða sé nýtt til að lögin snúist um hið raunverulega manngerða umhverfi og því hvernig megi bæta það

SAMGÖNGU- & SVEITARRSTJÓRNARRÁÐUNEYTI:

-Sér um Samgönguáætlun og er umsjónaraðili Vegagerðarinnar

-Hefur yfirumsjón með uppbyggingu samgöngumannvirkja

IÐNAÐARRÁÐUNEYTI:

-Samþykkir aðalhönnuði og skilgreinir námsgráður starfsgreinanna.

Menntun aðalhönnuða / Mat menntastofnanna / Námsgráða:

-Arkitektar:                                   BA       B-Arch      MSc    MA M-Arch

-Byggingarfræðingar                   BA

Mat á fullnaðarnámi sbr. ECTS einingar 180 / 210 / 300 / 360.

Menntunarkröfur aðalhönnuða: algengt lágmark eru 300 ECTS einingar

-Almenn hönnun bygginga og umhverfis þeirra

-Rýmismyndun innan sem utan og bygginga á milli

-Byggingarlistasaga, Ríkjandi Straumar og Stefnur í húsagerðarlist

-Verkfræðilausnir, Deililausnir, Tæknilegar lausnir og möguleikar

-Teikning, Framsagnir, Kynningar og Byggingarreglugerðir

-Starfsreynsla og Löggildingarpróf

-Þyrfti að fjalla um samræmingu námsgráða og skilgreina hvað er fullnægjandi nám til að fá löggildingu sem aðal- og samræmingarhönnuður

MENNINGAR- & MENNTAMÁLARAÐUNEYTI

-Útgáfa Menningarstefnu í Mannvirkjagerð

-Stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist

RÍKISVALDIÐ / SEÐLABANKINN / SKATTSTJÓRINN:

-Setja gengi gjaldmiðilsins og hafa þannig áhrif á efnis- og byggingakostnað

-Leggja á skatta-, gjöld og skyldur af framkvæmdum

SKIPULAGSSTOFNUN:

-Hefur yfirumsjón skipulagsmála og ályktar um einstök skipulagsmál

BORGAR- OG BÆJARSTJÓRNIR:

-Fer með yfirumsjón skipulagsmála hvers sveitarfélags – á hverju kjörtímabili

-Setja framtíðarsýn um uppbyggingu, umhverfi og ímynd

-Stuðla að mögulegri samvinnu sveitarfélaga á milli

-Framkvæmdasvið sveitarfélaganna hafa umsjón með verkefnum, sem og gæðum og áherslum í öllum verkefnum á vegum sveitarfélaganna

SKIPULAGSEMBÆTTI & NEFNDIR:

-Hafa umsjón með og setja stefnumál í skipulagsmálum

-Gefa út Aðalskipulag og Deiliskipulög einstakra hverfa eða reita

-Skipa samvinnunefndir um Svæðisskipulag

-Stjórnmálamenn og fagembætti ákvarða framtíðarsýn og möguleika

-Gera mögulega rammaskipulag til að vinna hugmyndafræði afmarkaðra svæða innan Aðalskipulags og vinna með hverfaráðum og hafnarstjórnum

-Ákvarða forgangsröðun og áherslur í uppbyggingu sveitarfélagsins

BYGGINGAEMBÆTTI & NEFNDIR:

-Hafa umsjón og eftirlit með byggingamálum.

-Stjórnmálamenn og fagembætti ákvarða hvað skal veita leyfi til að byggja og hvaða skilyrði skal uppfylla

EFTIRLITSSTOFNANIR:

-Eldvarnareftirlit, Heilbrigðiseftirlit og Vinnueftirlit yfirfara að farið sé að reglugerðum, sem hafa með skilgreind gæði úr reglugerðum að gera

-Ný Byggingastofnun sem skal tryggja samræmingu byggingareftirlits

ÁLITSGJAFAR:

-Húsfriðunarnefnd tilgreinir útgangspunkta í söguvernd og byggingalistarvernd

-Umhverfisnefnd & Náttúruvernd fjalla um hljóðvistarmál og friðun náttúruverðmæta

-Sérstakir álitsgjafar skipulagsembætta eru fengnir til að hjálpa til við ýmis verkefni með ráðgjöf sinni, t.d. við (Þróunaráætlun Miðborgar Reykjavíkur / Uppbyggingu & Verndun við Laugaveg o.s.frv.)

KÆRUNEFND SKIPULAGS- OG BYGGINGAMÁLA:

-Getur fellt niðurstöður embætta úr gyldi, ef kæra berst sem oftast er frá nágrönnum, sem ekki sætta sig við stjórnun mála hjá embættum. Lög umfram Sanngirni

-Oftar en ekki ber kærandi enga ábyrgð, sem getur valdið óþægindum, seinkunum, kostnaði og jafnvel stöðvun verka, án þess að krafa sé lögmæt eða sanngjörn

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR / BANKAR:

-Skoða hagsmunasjónarmið fjárfestinga

-Taka afstöðu til sölusjónarmiða framkvæmdar

-Meta ímyndarsjónarmið verkefnisins

-Yfirfara rekstrarsjónarmið byggingar

-Hafa þannig áhrif á fjármögnun verkefna

EFNISSÖLUAÐILAR / FRAMLEIÐENDUR / INNFLUTNINGSAÐILAR:

-Ákveða hvað flutt er inn til landsins, hvað er til á hverjum tíma og hvað það kostar, en einnig áhrif á afgreiðslutíma aðfanga frá pöntun til afgreiðslu

NOTENDUR / BYGGINGAAÐILI:

-Tilgreina þarfir og óskir notenda, rekstraraðila og byggingaraðila

-Eru bundnir af fjármögnunarmöguleikum sínum

-Meta „hag“ sinn af framkvæmd, hvort heldur er til eigin nota eða til sölu

-Ákvarða afstöðu sína til góðrar hönnunar sem mikilvægan hluta af góðu verki

AÐALHÖNNUÐIR:

-Aðalhönnuðir eru skilgreindir í lögum / reglugerðir tilgreina löggildingu þeirra

-Arkitektar, Byggingarfræðingar, Verkfræðingar og Tæknifræðingar

-Aðalhönnuðir eru mismunandi menntaðir einstaklingar sem ætlað er að vera stjórnendur hönnunar, þeir hafa líka mismunandi bakgrunn og reynslu

-Ýmist er um að ræða hönnunarfyrirtæki eða sjálfstæða hönnuði

-Ekki er alltaf óskað eftirfylgni aðalhönnuðar með hönnun hans og því ekki alltaf samhengi á milli hönnunar og verks eða fyrirætlana og niðurstöðu

FAGFÉLÖGIN:

-Eru umræðugrundvöllur um gæði byggingarlistar og hins manngerða umhverfis

-Stuðla að opinberri umræðu um áhrifavalda og möguleika í mótun hins byggða umhverfis

UMRÆÐAN:

-Arkitektafélagið, Verkfræðingafélagið, Félag Byggingarfræðinga

-Félag Skipulagsfræðinga og Félag Landslagshönnuða

-Listaháskólinn, hönnunar- og arkitektúrdeild

-HÍ – Endurmenntunardeild / HR með LHÍ – í sérverkefni um menntun

-Einstakir fagaðilar, Áhrifa- & Áhugahópar, Fyrirtæki í Byggingariðnaði

-Félagsfræðingar, Lýðheilsufræðingar, Vistbyggðaráð

-Borgarfræðastofa, Reykjavíkur Akademían, Betri Borgarbragur

-Listasafn Reykjavíkur, – Byggingarlistadeild, Norrænahúsið

-Skipulagssvið Reykjavíkur og mögulega annarra

FJÖLMIÐLAR:

-Áhugi og þekking fjölmiðla og fjölmiðlafólks, til að fjalla um mikilvæg mál í bæði sögu og framþróun í öllum listum, þ.á.m. byggingarlist

-Umfjöllun um hið byggða umhverfi, bæði með gagnrýnu auga á það sem gert er, en ekki síður á umræðuna sjálfa

AÐRIR SÉRHÖNNUÐIR:

-Burðarvirkishönnuðir, Lagnahönnuðir, Raflagnahönnuðir, Loftræstihönnuðir, Lýsingarhönnuðir, Hljóðvistarhönnuðir, Brunavarnahönnuðir, Innréttingahönnuðir, Landslagshönnuðir, Byggingartæknihönnuðir

-Sérlausnaráðgjafar; t.d. Öryggismála, Hljómtækja- & Sjónvarpsmála

NÁGRANNAR / ALMENNINGUR:

-Sérhagsmunaaðilar „ekki í mínum bakgarði“ fólkið

-Utanaðkomandi og almennir álitsgjafar – „þeir sem vita betur fólkið“

-Þróunar- og samráðsfélög einstakra svæða og Hverfafélög

FRAMKVÆMDAEFTRIRLITSAÐILAR:

-Aðilar sem gefa sig út fyrir að vera sérstakir Hönnunarstjórar, en eru ekki alltaf aðalhönnuðir og oft ráðgjafarverkfræðifyrirtækja

-Byggingastjórar og Verkefnisstjórar eru yfir höfuð ekki aðalhönnuðir og oftast iðnaðarmenn og/eða byggingarfræðingar

-Eftirlitsaðilar eru sjaldnast aðalhönnuðir og oftast ráðgjafarverkfræðifyrirtæki

-Gæðaeftirlitskerfi viðkomandi aðila og samhengi eftirlits og hönnunar

VERKTAKAR:

-Aðalverktakar, sem eru aðalumsjónaraðilar verkframkvæmda

-Gæðakerfi og eftirfylgni þess, í anda þess sem ná átti fram með hönnun

IÐNGREINAR:

-Undirverktakar, fyrirtæki með sérþekkingu eða einstaklingar

-Störf húsasmíðameistara, pípulagningameistara, raflagnameistara og annarra iðngreina er á endanum það sem viðkomandi sér í umhverfi sínu

FASTEIGNASALAR:

-Að geta skilgreint það sem í boði er eftir raunverulegum gæðum, en ekki í auðveldlega rangtúlkuðum og ofnotuðum fyrirsögnum um gæði

-Að bakgrunnur og raunveruleg þekking fasteignasala sé á því sem verið er að selja með ráðgjöf þeirra og sé í samhengi við mikilvægi viðskiptanna

HINN ALMENNI: NEYTANDI / KAUPANDI / BYGGJANDI:

-Að þekking þeirra sé betri á því hvað raunveruleg gæði eru og hvernig eigi að bera sig eftir þeim við ráðgjafa sína

-Að setja kröfur um gæði í samhengi á milli þarfa, óska og fjárhags

-Að gera kröfur um þekkingu ráðgjafa í samhengi við óskir um gæði

 

Eins og sést á þessari upptalningu, þá eru verulega margir aðilar sem koma að því hvernig umhverfi okkar byggist. Gott væri ef þessir aðilar kæmust að því að í þessu ferli, eru það arkitektar, sem einir hafa með menntun sinni, þekkingu til að vera aðalhönnuðir, enda er nám þeirra að miklu leiti byggt á hugsana- og hugmyndaferli, sem og krítisku endurmati og skoðun sem er ætlað að leiða að lausnum sem henta í samhengi starfsvettvangs allra þessara aðila.  Þess vegna er oftast rætt um arkitekta sem aðalhönnuði.

Vinna arkitekta er í eðli sínu ráðgjöf, sem byggir á hönnun viðkomandi aðalhönnuðar, í viðbót við lausnir sérhönnuða, yfirfarinni af embættum og pólitík, til þess að uppfylla skilyrði laga og reglugerða, á sama tíma og henni er gert að uppfylla þarfir og óskir verkkaupa sem og fjárhag, hver sem hann er og á sama tíma að falla að því heildarmynstri sem bæði yfirvöld og almenningur óskar eftir í umhverfi sínu. Niðurstaða þess hversu vel tekst til með hönnun hefur með það að gera að aðalhönnuður nái að hafa alla þessa aðila með sér í þeirri ósk að gera byggingar og umhverfi þeirra góðar fyrir viðskiptavin sinn, á sama tíma og honum er ætlað að huga að almannahag og heill.  Stundum er vísað til þess að aðalhönnuðir séu að byggja sér „minnisvarða“.  Það ætti að þykja hin besta ráðgjöf, þar sem aðalhönnuður setur með metnaði sínum, sjálfsvirðingu sína ávalt að veði. Ef hann er fyllilega ánægður með niðurstöðu verks síns og ráðgjafar, ætti það að vera til hags bæði byggjandans og verkefni hans, sem og umhverfinu og samhengi þess.

Ástæða þessa flókna ferlis, sem og það að arkitektar telja að mun betur væri hægt að gera en verið hefur, var ástæða þess að fulltrúar Arkitektafélags Íslands leituðu eftir að koma að frumvarpsferli um Skipulags- og Byggingarlög, sem og reglugerðum í framhaldi af því. Fundur félagsmanna með Umhverfisnefnd var til þess ætlaður, en virðist helst hafa snúið að vanþekkingu eins nefndamanna, sem með einhverjum hætti hefur valist til starfa í umhverfisnefnd og því til umfjöllunar á lögum um skipulag og byggingar og lagaumgjörð þess umhverfis sem við ætlum okkur að byggja í nánustu framtíð.

Í stað þess að kýta í heila starfsstétt, sem gerir sitt besta til að starfa á hinum flókna vettvangi hins byggða umhverfis og er nú á þessum erfiðu tímum að miklu leiti atvinnulaus, en hefur gefið tíma sinn til yfirferðar og umfjöllunar á umræddri frumvarpsgerð, hefðu aðilar Umhverfisnefndarinnar því frekar að taka því opnum örmum þegar þeim er afhent uppbyggjandi gagnrýni á frumvarpið og það starfsumhverfi sem þessum hönnuðum er ætlað að leiða, í framhaldi af settum lögum og að umfjöllun lokinni.

 


 

#2    UM GÆÐI HÖNNUNAR

 

Svo er annað mál, að erfitt er að dæma hvað er „góð hönnun“ og því hvað er „góður arkitekt“. Undirritaður ætlar ekki að setja sig í dómarasæti þar, þó það sé óendanlega áhugarvert málefni sem sjaldnast fæst fullnaðar niðurstaða í.  Hægt er að meta menntun gróflega eftir gráðum en einnig eftir því hversu vel metnar viðkomandi menntastofnanir eru.  Þvílíkt mat og flokkun er ekki almennt til, nema hvað í bandaríkjum Ameríku er þetta gert.  Aðalhönnuðir eru þá m.a. í frumvarpi til laga, allir settir á einn bát, hvort heldur menntun þeirra er 210 einingar, 300 eða 360 og hvort heldur þeir hafi lært það sem telst almennt viðmið til löggildingar aðalhönnuða.  Svo er reyndar spurning hvernig eigi að meta þau viðmið og ekki allir á eitt sáttir um það.   Í framhaldi af því væri hægt að meta starfsreynslu, en það sem venjulega er gert er að meta það eftir árafjölda, sem hefur lítið með gæði að gera.  Betur færi að tilgreina það hvað viðkomandi aðili hefur haft umsjón með í þeim verkum sem hann/hún hefur unnið, bæði með öðrum og sjálfstætt.

Ekkert þessara atriða hefur samt með það að gera hversu góður hönnuðurinn er sjálfur. Það að ná prófi, þó úr góðum skóla sé og það að hafa unnið í langan tíma að fjölbreyttum verkefnum, gefur lítið eða ekkert til kynna um gæði hönnuðar.  Það mesta sem það gerir er að koma því til skila að hann hafi hugsað einhvern hlut, jafnvel fengið hann byggðan, en það segir ekkert til um gæði hans eða hennar sem ráðgjafa.  Til þess hafa verið gerð það sem kallast portfolio eða verkefnamöppur, sem mörgum eru sjálfsagt ókunn, en þar tilgreinir viðkomandi aðili menntun sína, starfsreynslu fyrir aðra, samkeppnir og mögulega verðlaun þar fyrir og svo að síðustu starfsreynslu sína og hlutverk í eða hjá því fyrirtæki því sem um ræðir og í hverskonar verkefnum.  Með þessu er svo oft látin fylgja myndasyrpa til kynningar á verkefnum, eða ritstörfum sem viðkomandi tengist og með því ætlað að kynna afstöðu viðkomandi hönnuðar á myndrænan hátt.  Á endanum er það svo huglægt mat sem þarf til, til að viðkomandi verkkaupi geti gefið „einkunn“ fyrir „gæðum“ viðkomandi ráðgjafarhönnuðar að því verki sem liggur fyrir að vinna.  Ólíkur verkkaupi gæti því dæmt viðkomandi hönnuð með mismunandi hætti, en einnig gæti sami verkkaupi dæmt hönnuðinn með mismunandi hætti miðað við það verkefni sem verkkaupinn tekur sér fyrir hendi og liggur fyrir á hverjum tíma.

Ríkiskaup hafa nýlega óskað eftir að gera rammasamning við hönnuði og er honum verulega ábótavant, en gerð samningsins samrýmist ekki því hvernig hægt er að meta störf hönnuða. Er þar í megin dráttum gerð tillaga til að meta hönnuði af starfsreynslu, en ekki af gæðum hönnunar, eða því hversu góður hönnuðurinn er í raun, eða hefur möguleika til að vera fyrir viðkomandi verk.  Mögulega er þessi samningsgerð dæmi um afstöðu ríkisvaldsins til hönnunar almennt, en er þá í andstöðu við það sem ríkisvaldið hefur frá sér látið fara með útgáfu sinni um Menningarstefnu í Mannvirkjagerð.  Betur má því ef duga skal.

 

UM KOSTNAÐ HÖNNUNAR OG GÆÐI FRAMKVÆMDAR

Oft hefur verið sagt að „ekkert verk geti orðið betra en eigandinn leyfir því að verða“. Þar ætti reyndar að bæta við, að ekkert verk verður betra; en löggjafinn, eftirlitsstofnanir, skipulagsnefndir og bygginganefndir og önnur yfirvöld leyfa verkinu að vera.  Þar til viðbótar ætti svo að bæta, að ef nágrannar og sérstakir álitsgjafar, kærunefnd, utanaðkomandi hagsmunaaðilar og lánastofnanir leyfa fær verkefnið að gerast.  Að endingu ætti svo að bætast við að ef aðalhönnuður fylgir ekki verkinu til enda að ósk verkkaupa, sem venjulega er ætlað til sparnaðar á hönnunarkostnaði, þurfa Verktakar, Iðnmeistarar og Framkvæmdaeftirlitsmenn að leyfa verkinu að verða eins góðu og það getur best orðið.

Starf og hlutverk aðalhönnuðar er því farið að verða nokkuð flókið og það að láta alla þessa aðila fylgja þeim fyrirætlunum sem koma fram með ráðgjöf hönnuðarins ekki öruggt. Við þetta bætist sá einfaldi raunveruleiki, að arkitektar eins og aðrir hafa að jöfnu hlotið fimm ára háskólamenntun eða meira, sem oftast nær var dýr, þar sem ekki var hægt að nema arkitektúr á Íslandi og er ekki enn að fullu.  Þess skal viðbætt, að skv. nýlegri könnun og fréttum, þá kosta nú nemendur Listaháskóla Íslands skattborgarana allt að 3 millj. kr. á ári, en þessar upphæðir hafa hingað til arkitektar þurft að greiða sjálfir í gegnum stighækkandi námslán sín.  Störf hönnuða þurfa því að standa straum af greiðslum af almennt háum námslánum í viðbót við að draga fram lífið með mannsæmandi hætti.  Flestum hönnunarfyrirtækjum er ætlað að vera stærri frekar en minni og í því felst að í útseldum vinnutíma hönnuða þarf að reikna taxta eðlilegan rekstrarkostnað teiknistofa þeirra; húsnæði, launum, bókun, lögformlegum starfstryggingum, sköttum og skyldum, sem og öðru því sem eðlilegt þykir í fyrirtækjarekstri og er hagnaður þar ekki undanskilinn frekar en hjá öðrum fyrirtækjum.

Fæstir arkitektar ganga frá vinnu sinni með mikinn hagnað í vasanum, þó ekkert væri eðlilegra en að þeir fengju mannsæmandi laun fyrir störf sín. Það virðist þó eilíflega vera fundin ástæða til þess að reyna að fá hönnuði til að lækka hönnunarkostnað sinn, þó almennt sé talið að oftar en ekki hefur sparnaður í hönnun neikvæð áhrif á byggingarkostnað.  Algengt er orðið að þegar kostnaður verkefna er skoðaður, er það í samhengi við fyrri vinnu og reynslutölur af þeim um þóknun.  Áætlaður er tímafjöldi hönnuða af viðkomandi tegund verkefnis og reiknaður á meðaltalstaxta viðkomandi hönnunarfyrirtækis.  Niðurstaðan hefur oftar en ekki orðið svipuð og hefur því orðið úr að fyrir mismunandi verkefni, að stærð og flækjustigi, hefur komist á prósentureikningur af áætluðum byggingarkostnaði framkvæmdarinnar sem á að hanna.  Flestir ráðgjafar vinna með svipaðar fjárupphæðir, sem áætlaðar eru til greiðslu fyrir vinnustundir af svipaðri vinnu.  Þessu má þó ekki flækja við annarskonar starfsemi, sem áætlar prósentuþóknun sína eftir fyrirfram gefinni „sanngirni“ viðkomandi starsstéttar, svo sem fjármálafyrirtækja eða fasteignasala, þar sem prósentugreiðsla fyrir ráðgjöf hefur ekkert beint samhengi við vinnuframlag viðkomandi ráðgjafa, heldur sem hlutdeild í hagnaði viðkomandi viðskipta.  Prósentuútreikningar fyrir vinnu arkitekta hefur með það að gera hverjar reynslutölur eru að viðkomandi framkvæmd, í samhengi við stærð og gerð byggingarinnar og svo það hvað hægt er að áætla mikið vinnuframlag í vinnustundum til að klára hönnun byggingarinnar með hag verkefnisins að leiðarljósi.  Það hversu mikið verkefnið er unnið getur hinsvegar haft með það að gera hversu mikill hönnunarkostnaðurinn er og því getur verkkaupi sparað sér einhverja upphæð með því að láta ekki hönnuðinn klára verk sitt með þeim hætti sem gengur út frá fullri þjónustu hans.  Magn ráðgjafar og kostnaður hefur því m.a. með fyrirfram ákveðna þörf viðkomandi byggjanda að gera til að klára verk sitt og því hversu mikið hann vill láta skilgreina eða hanna það til að þörfum hans og óskum sé fullnægt í undirbúningi að framkvæmdinni.  Almennt er reynsla stærri byggingaraðila og þeirra sem best til þekkja sú, að ekki er talið sérstaklega góð sparnaðartækni að minnka ráðgjöf hönnuða um of.

Þetta segir svo hinsvegar ekkert um það hversu „góður“ viðkomandi hönnuður er, né það hversu „falleg“ byggingin, rýmið eða umhverfið verður. Það eru fleiri samþættir hlutir; í forsögn, þörfum og óskum verkkaupa, aðgangi að fjármagni, vali á hönnuði fyrir viðkomandi verkefni, hönnun og meðferð hönnunarinnar á framkvæmdartímanum sem leiða til þess hversu vel til tekst, í viðbót við alla þá ofangreinda aðila sem koma að því sem við köllum byggingariðnaðurinn og eru taldir upp hér að framan í kafla 2.

 

UM UMRÆÐUNA SJÁLFA

Styrkveitingar til málefnalegrar umræðu um umhverfi okkar á vegum fagfélaganna er ekki mikil, né skilningur á mikilvægi þeirra.  Heldur er það látið rekast í sjálfboðavinnu einstaklinganna hversu vel tekst til.  Ekki væri óeðlilegt ef ráðuneyti þau sem fara með hönnunarmál, menningarmál og umhverfismál, veittu einhverja styrki í þetta málefni, sem er byggingarumhverfið.  Það skal í því sambandi tekið fram að hlutur byggingariðnaðarins í þjóðarframleiðslu á íslandi hefur verið að meðaltali um 8,8 % þjóðartekna frá aldamótum.  Mest var hún um 11,6% en er nú minnst um 5,3%.  Það er því ekki um litlar upphæðir hér að ræða og ættu stjórnvöld því að sjá sér og þjóð sinni og umhverfi hag, með því að taka kraftmeiri þátt í þeirri umræðu sem fer fram um þennan stóra hluta af tekjum þjóðarinnar.

Á þessu má sjá að líklega er þetta ekki alveg eins einfalt mál að dæma og m.a. fyrrgreindur nefndarmaðurinn virðist hafa haldið, ein einnig ætti það að vera að ef kjörinn fulltrúi á Alþingi tjáir sig í umboði umhverfisnefndar, ætti hann fyrst að kanna innihald og grunn af því af hverju arkitektar töldu sig hafa eitthvað fram að færa inn í umræður og vinnu nefndarinnar. Í því fellst m.a. ábyrgð hans.

Hvernig sem því líður, þá buðu arkitektar fram aðstoð sína til að fjalla um málefnið, en vegna ástæðna sem eru mörgum okkar ofar skilningi, hefur þeirri aðstoð verið í stórum dráttum hafnað að embættum þeim sem m.a. eru á umsjá firrgreinds málfræðings og hafa með byggingariðnaðarmál að gera. Það þótti arkitektum miður og óskuðu eftir samráði við umhverfisnefnd, sem virðist með framgöngu hæstvirts þingmanns „vinsamlegast“ hafa verið afþakkað, í krafti nefndarsetu hans..

Ég lýsi eftir því hvað nefndarmaðurinn og í raun umhverfisnefnd í heild sinni, vill til bragðs taka til að gera umhverfi okkar betra í framtíðinni. Undirritaður, sem er arkitekt, er tilbúinn til þess að ræða framtíðarsýn og umhverfi, lagaumhverfi hins byggða umhverfis, sem og byggingalist almennt við nefndarmanninn eða nefndina alla  ef óskað yrði fundar, persónulega eða í umboði umhverfisnefndar.

Spurningin er því Hvað Er Aðalatriði Hérna ? Að faglært fólk fjalli um það með hvaða hætti framtíðarumhverfi okkar verður, eða að sjálfskipaðir „sérfræðingar“ sem telja sig vita betur en allir hinir, stjórni bæði umræðunni og umgjörðinni?

Ef tengja á áhrif við ábyrgð og ef finna á þá aðila sem hana helst bera, þyrftu fulltrúar allra þessara fyrrgreindu aðila að koma saman og ræða með opnum hug afstöðu sína til umhverfisins og gæða í uppbyggingu þess til framtíðar. Að endingu þyrftu svo allir þessir aðilar að líta í eigin barm og finna hvað þeir geta til þess unnið til að svo megi verða, en það á ekki síst við um hina opinberu yfirstjórn byggingarmála að íhuga hlutverk sitt og ábyrgð betur en verið hefur.  Arkitektar eru þar ekki undanskildir og ættu að skoða vinnu sína með jafn krítískum augum og þeir ætlast til af öðrum.

Undirritaður arkitekt getur fullyrt að félag arkitekta á íslandi myndi ekki skorast undan þvílíkri umræðu, en myndi væntanlega óska eftir að koma að henni áður en niðurstöður stjórnenda hennar liggja fyrir. Samráð er nefnilega ekki bara fallegt orð, heldur umgjörð um það hvert skal haldið.  Þvílíkri umgjörð þarf að vinna að í samráði aðilanna frá upphafi verks ef vel má vera, þegar tekið er á forsendum þess sem vinna á, en ekki einungis að tilkynna niðurstöður lokaðs hóps valinna aðila.

Um þetta snýst framtíðarsýn í uppbyggingarmálum og með henni er mögulegt að stuðla að framtíðarumhverfi okkar, þannig að sómi verði af.

 

Vinsamlegast,

Ívar Örn Guðmundsson

NEXUSarkitektar

 

Share this Post

Comment

Tags