loading

City Center Infill

June 15, 2016·by ivar·in Architecture & The City

CITY CENTER INFILL –

Maturing Cityscape

Morgunblaðið 2003, nóv. (Interview – Svavar Knút Kristinsson)

 

EÐLILEGUR HLUTI AF ÞROSKA BORGARINNAR

Mikil umræða hefur verið undanfarnar vikur um gamla Austurbæjarbíó og fjölmörg sjónarmið komið fram. Eigandi hússins, Árni Jóhannesson og arkitektinn Ívar Örn Guðmundsson vilja reisa á reitnum íbúðarhúsnæði fyrir um hundrað og sjötíu íbúa. Þeir sögðu Svavari Knúti Kristinssyni frá framtíðarsýn sinni á svæðinu og hugmyndum sínum um þéttingu byggðar og þroska borgarinnar.
Norðurmýri  “Ég keypti húsið af Sam-feðgum fyrir um fimmtán mánuðum og hugmyndin var náttúrlega komin til af því að ég var búinn að sjá hugmyndir Reykjavíkurlistans um að þétta byggð,” segir Árni, en hann er forstjóri ÁHÁ-verktaka. Fyrirtæki hans byggði meðal annars Smáratorg, byggingu Nýherja og
átta hæða turnbyggingu við Snorrabraut.

“Mér fannst þetta alveg kjörið svæði til slíkrar þéttingar og fékk mjög góðar undirtektir fyrir því hjá borginni að gera eitthvað við þetta svæði. Síðan þá hefur verið ágætissamstarf milli mín og borgarinnar í þessu máli. Menn hafa verið að þróa þessar hugmyndir og eru
ennþá að því.”

Enginn rekstrar- grundvöllur fyrir bíói eða tónlistarhúsi í húsinu

“Það er alveg klárt að það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir bíói eða tónlistarhúsi í þessari byggingu. Það hvarflaði aldrei að mér að þetta gæti orðið friðað hús.
Þetta er ekki þannig hús í mínum augum að þetta gæti verið eitthvert fallegt hús sem á að friða. Það kostar svo mikið að gera við það að það gengur engan veginn upp. Borgin er sammála mér í því og þá hefðum við heldur aldrei keypt bíóið, það er alveg klárt mál. Það er enginn grundvöllur til annars en að rífa þetta. Hugmynd okkar var að byggja þarna glæsibyggingar og það hafa komið margar fyrirspurnir um íbúðir þarna, en vissulega get ég ekki gert neitt fyrr en ég fæ leyfi. En sjónin er sögu ríkari og þessi nýja íbúðarbygging gerir heildarsvip svæðisins mun fallegri. Þarna verða áttatíu og tvær íbúðir og meðalstærðin er um sjötíu til áttatíu fermetrar. Síðan er gert ráð fyrir þúsund fermetrum af þjónustu- og verslunarhúsnæði á jarðhæðinni. Bílastæðin verða undir húsinu og því leysast mikil bílastæðavandamál á svæðinu, en mikill bílastæðavandi fylgdi bíóinu á meðan það var rekið. Við getum haft þau á einni eða tveimur hæðum ef ríki eða borg vilja bæta við aukabílastæðum til að létta á bílastæðaþörf svæðisins í kring.” 

Árni segir umhverfið í kringum bíóið vera í nokkurri niðurníslu og nauðsynlegt að fríska upp á það.

“Til dæmis er garðurinn á bak við bíóið orðinn það ófrýnilegur að börn eru hætt að fara inn í hann. Gamli róluvöllurinn er líka afar lítið notaður.”

Borgir þroskast samfara þörfum einstaklinganna

Ívar Örn Guðmundsson hjá arkitektastofunni Nexus hefur unnið með Árna að fjölda tillagna að nýju skipulagi svæðisins. Hann segir áform um byggingu íbúðarhúsnæðis á Austurbæjarbíósreitnum hluta af þéttingu byggðar og leið til þess að færa fólk nær þjónustu og minnka bílaumferð. “Það er ekki eðlilegt í rauninni að halda í húsið miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram. Kostnaður við kaup og viðgerðir á húsinu hleypur á hundruðum milljóna. En á endanum snýst það ekki einu sinni um það. Við erum að byggja borg á löngum tíma og þarfir svæða breytast. Við þroskumst í óskum okkar og þörfum og þarfir heillar borgar þroskast á svipaðan hátt og einstaklingarnir innan hennar.
Borgin okkar býður upp á marga möguleika á búsetu innan borgarmarkanna, fólk getur valið að búa í sveit, í úthverfi, í smáíbúðahverfi, í þéttu hverfi og eiga líka aðgang að höfuðborg. Eftirspurnin eftir húsnæði í miðborginni er mikil og mikið af fólki sem vill búa nálægt henni. Þeim mun meira af fólki sem býr nálægt miðborginni, þeim mun líklegra er að við förum að upplifa alvöru borgarstemningu hérna með allri þeirri fjölbreytni sem henni fylgir. Reykjavík hefur verið að þróast úr því að vera bær yfir í að vilja vera borg. Það eru allir sammála um að heildarhagsmunir borgarinnar felast í uppbyggingu miðborgarinnar og auðugra mannlífi innan hennar.
Ég bý til dæmis á Laugaveginum og vinn á Laugaveginum, ég komst inn í þá stemningu eftir að hafa starfað erlendis, í New York og London. Þúsundir aðila hugsa eins, fólk vill geta labbað á inniskónum út í bakarí eða kaffihús.
Ég hef unnið heillengi við að gera upp gamlar byggingar, bæði hér á landi og erlendis, það á við á sumum stöðum, en annars staðar skipta heildarhagsmunir borgarinnar meira máli. Okkar áætlun er bara einn angi
af uppbyggingaráformum miðborgarinnar. Skuggahverfið er annar hluti af því og svo má nefna Vatnsmýrina og fleiri staði þar sem verið er að þétta.
Allt kemur þetta saman að því að mynda áhugaverðari og skemmtilegri miðborg. Við gerum ráð fyrir um hundrað og sjötíu manns sem flytja í hverfið. Við erum búnir að leysa bílastæðamálin þeirra, við erum búin að gera möguleika á verslun við þessa aðalgötu. Maður þekkir það í svona þéttum byggðum, þar er það mjög mikill kostur að hafa búð sem maður getur skotist í á leiðinni eitthvert.” Árni tekur undir þetta og segir mikinn kost að hafa banka, búð og aðrar verslanir í göngufæri.

Borgin líti inn á við og stöðvi hamslausa útbreiðslu

Ívar segir erlenda aðila víða um heim sem hafa unnið í skipulagsmálum vilja miðla þeirri þekkingu sem hefur áunnist.

“Hlutir hafa mikið breyst, í upphafi var mikið einblínt á hvað við ættum mikið land og ekki hugsað út í kostnaðinn við hamslausa útbreiðslu borgarinnar, til dæmis í samgöngum. Við getum lært af mistökum fortíðarinnar í öðrum löndum. Erlendis eru menn hættir að breiða úr sér endalaust og farnir að líta sér nær, því borgin horfir inn á við. Það kallast “Urban sprawl” þegar borgir breiðast hamslaust út og það er ekki æskileg borgarþróun. Ný borgarstefna, eða “New Urbanism”, er síðan dæmi um hið gagnstæða, þar sem litið er inn í borgina. Grundvallaratriðið í nýrri borgarstefni er að borg horfir inn í sig. Borgarsamfélagið snýst um það sem borgararnir hafa fyrir stafni, við viljum taka þátt í lífi og athöfnum hver annars, miklu frekar en útsýni til hafs eða fjalla. Vissulega er gott ef það er mögulegt en lykilatriðið er mannlífið. Þess vegna erum við að reyna að þétta þennan litla kjarna í gamla miðbænum. Húsið sem við áformum að byggja mun auka verðmæti eignanna í kring og fegra umhverfið. Við leitumst við að gera þessa byggingu vandaða í alla staði og umhverfi sínu til sóma. Til dæmis höfum við það markmið að viðhalda miklu af því gróðurmagni sem nú er á svæðinu. Við treystum því að nútíðin sé jafnmikils virði og fortíðin og hafi mikið gildi fyrir framtíðina. Hagsmunir miðborgarinnar eru þeir að auð svæði þurfa að lúta í lægra haldi fyrir nýrri þróun. Það verður meiri skuggamyndun og það verður þéttari byggð, það verður meira um nágranna. Það sem skiptir máli er að græn svæði séu fókuseruð og vel skipulögð. Þá verður gildi þeirra til útivistar og skemmtunar miklu meira. Vel skipulagt útivistarsvæði þarf ekki að vera plássfrekt ef það er vel úr garði gert. Þetta er líka ekki bara spurning um skugga, því skuggar eru óumflýjanlegir í miðborg. Hins vegar er mjög mikilvægt að í þessu verkefni er gert ráð fyrir góðri rýmismyndun. Gott rými skiptir miklu máli.”

Þeir félagar segja einnig að þegar búið verði að gera upp svæðið þar sem Austurbæjarbíó stendur nú og á reitnum inn af því, skapist tækifæri og svigrúm til þess að bæta heildarsvip næsta nágrennis. “Það má einnig líta til svæðisins við hliðina á þessum reit, nær Laugaveginum, en það þarfnast nauðsynlega einhvers konar lagfæringa,” segir Árni og Ívar Örn bætir við að vel færi að bæta það svæði með fallegu íbúðarhúsnæði með bílakjallara og þjóna þá betur þeim þörfum sem eru til staðar.
“Eitt af því sem er mjög sjarmerandi í borgarstemningunni er að þar er oft að finna lítil og spennandi bíóhús og alls kyns sérvitringslegar búðir. Svona fyrirtæki blómstra vel þegar byggð hefur þést, því með fleira fólki og þéttari byggð myndast líka miklu fleiri möguleikar fyrir fjölbreytt mannlíf,” segir Ívar
Örn, sem langar til að færa fjölbreytni inn í reykvískt borgarlíf. “Það besta sem finnst í heimsborgum erlendis. Við höfum möguleika á að skapa stórborg með öllum kostum smás samfélags.”
Húsafriðunarnefnd hefur nú mál Austurbæjarbíós til skoðunar og segist Árni vonast til þess að málið fari þrautalaust í gegnum ferli hins opinbera.

“Ég tapa tveimur milljónum á mánuði á meðan ég má ekki hefja framkvæmdir, svo það liggur mikið undir hjá mér. Ég trúi því samt varla að menn muni finna forsendur fyrir verndun hússins, þar sem það er illa farið og mjög erfitt að taka fólk þarna inn.” Ívar segir líka tónlistarumhverfi hafa breyst mikið á síðustu áratugum. “Þegar þetta hús var byggt var ekki mikið af tónlistaraðstöðu í Reykjavík. Nú er músíkumhverfið í bænum inni á veitingastöðum. Fólk fer á Gaukinn og Nasa og alls konar staði til að hlusta á tónlist. Þörfin fyrir þetta hús er ekki lengur til staðar og umhverfi þess ber heldur ekki bílastæðaþörfina. Þörfin fyrir fallegt íbúðarhúsnæði í miðborginni er hins vegar mun brýnni.”

 

Share this Post

Comment

Tags