loading

HVAÐ ER ARKITEKT ?

June 10, 2016·by ivar·in Reflections & Thoughts

HVAÐ ER ARKITEKT ? –

Um Hlutverk Og Verkefni Arkitekta

Byggingameistarafélag Íslands var fyrsta fagfélag þeirra er sinntu hönnun bygginga hér á landi, stofnað árið 1926. Tíu árum síðar sögðu nokkrir félagar sig úr því og stofnuðu, Akademíska arkitetektafélagið.  Árið 1956 sameinuðust þessi félög í Arkitektafélagi Íslands.

Félagar í Arkitektafélagi Íslands eru nú um og yfir 300 talsins.

 

TILGANGUR FÉLAGSINS

„…er að stuðla að góðri byggingarlist í landinu, efla samvinnu félagsmanna og standa vörð um hagsmuni þeirra“.

 Arkitekt er lögverndað starfsheiti, sem merkir að hver sá sem kallar sig arkitekt verður að hafa til þess heimild iðnaðarráðuneytisins. Einungis þeir sem eru með prófgráðu frá viðurkenndum arkitektaskóla fá heimild til að nota starfsheitið.  Fullgildir félagar í Arkitektafélagi Íslands nota skammstöfunina FAÍ aftan við starfsheiti sitt.  FSSA, félag sjálfstætt starfandi arkitekta hefur verið starfrækt síðan 1998 og vinnur í samstarfi við Arkitektafélagið að hagsmunamálum arkitekta.

 

STÖRF ARKITEKTA

Arkitektúr er listrænn og tæknilegur þáttur í hönnun mannvirkja og í mótun umhverfis, þar sem notagildi og fagurfræði eru samofin í hverju verki.  Fátt annað endurspeglar menningarstig samfélagsins eins skýrt og byggingarlistin.  Þau hús sem reist eru í dag eru byggingararfleifð framtíðarinnar og af þessum verkum verður samtíð okkar metin.

 

ARKITEKTINN

…er aðalhönnuður mannvirkis og ber samkvæmt lögum að samræma teikningar allra hönnuða er að verkinu koma.

…vinnur að gerð svæðaskipulags, aðalskipulags, ramma- og deiliskipulags.

…hannar og teiknar byggingar, innréttingar, húsgögn og nytjahluti.

…gerir framkvæmdaáætlanir, kostnaðaráætlanir, mat á umhverfisáhrifum, eignaskiptasamninga og eldvarnaruppdrætti.

…veitir ráðgjöf um allt er varðar innra og ytra útlit byggingar.

…veitir ráðgjöf um endurbyggingu, viðbætur og viðhald eldri bygginga.

 

SAMKEPPNIR

Þegar hanna á stærri byggingar eða skipuleggja viðkvæmt umhverfi eru stundum haldnar samkeppnir til að fá fram sem flestar hugmyndir að lausn verksins. Þetta tryggir að besta lausnin sé ætíð valin og er um leið vettvangur arkitekta til að bera sig saman við kollegana.  Samkeppnir eru aðallega skilgreindar með tvennskonar hætti; annarsvegar sem hugmyndasamkeppnir og hinsvegar sem framkvæmdasamkeppnir.  Þessar samkeppnir geta verið opnar öllum, eða til þeirra boðið sérvöldum aðilum.  Í hugmyndasamkeppnum eru verðlaunin fyrirfram tilgreind og oftast er hún í formi peningagreiðslu fyrir vinnuframlagið.  Í framkvæmdasamkeppni er keppt um hönnun framkvæmdarinnar sjálfrar og því verðlaunin samningur um hönnun verksins.

 

 #1    Hvað er arkitekt?

 Arkitekt er hönnuður sem hefur útskrifast frá viðurkenndum arkitektaskóla (og hefur lokið lágmarksmenntunarkröfu arkitekta, sem almennt eru 5 ár og 300 ECTS einingar.)

Arkitekt verður að vera fær um að sjá fyrir sér nýja staði, og þá möguleika sem felast í viðfangsefni hans. Hann verður að hafa listrænan skilning á formum, þekkingu á smíði og eiginleikum byggingarefna í því loftslagi sem byggt er í. Einnig þarf hann að hafa þekkingu í sögu arkitektúrs og grunnskilning á hagfræði. Þetta krefst mikillar þjálfunar sem hægt er að læra í viðurkenndum arkitektaskóla.  Á Íslandi er hægt að nema arkitektur við Listaháskóla Íslands, en annars hafa íslendingar numið arkitektúr á síðustu áratugum, víðs vegar um heiminn. Nám arkitekta tekur um 5-7 ár og er stærstur hluti námsins hönnun bygginga í stúdíoi, þar sem umræða um verkin er mikilvægur þáttur.

Arkitekt þarf að ná löggildingarprófi og að hafa starfstryggingu til að geta starfað sem sjálfstæður hönnuður og ráðgjafi.

…………..

 

#2    Hvað gerir arkitekt?

Arkitektinn er fyrst og fremst ráðgjafi. Vinna hans snýst að miklu leiti um aðferðafræði og þekkingu á lausnum, til að þjónusta viðskiptavin sinn. Oft þegar rætt er um vinnu arkitektsins, er það með áherslu á skapandi hugmyndavinnu, að gera skissur byggja módel. En starf arkitektsins hefur fleiri hliðar. Fyrir utan hina skapandi hugmyndavinnu, verður arkitektinn að geta samið við og skilið hlutverk þeirra sem koma að ferlinu, verkkaupans, verkræðinga og byggingaryfirvalda til að geta fylgt hugmynd sinni eftir.  Arkitektinn er aðalhönnuður framkvæmda og er honum ætlað að stjórna samhæfingu hinna ólíku þátta sem saman koma í hönnun og byggingu verkefna viðskiptavinarins.

Almennt um þjónustu arkitekta er vísað til Arkitektafélags Íslands.

…………………..

 

Hönnun

Í fyrsta lagi starfar arkitekt að hönnun nýbygginga, en einnig að eftirliti með byggingu þeirra, sem og breytingar, lagfæringar, viðhald og endurbætur á eldra húsnæði og einnig hönnun innréttinga, torga, garða og útivistarsvæða.  Arkitek hannar rými og umgjörð þeirra, hvort heldur eru rými byggingar, eða samhengi bygginga um borgarrýmin.

Ráðgjöf arkitekta er til verkkaupa, hvort heldur til einstaklinga, fyrirtækja eða sveitafélaga.  Felst hún í hönnun mannvirkja,  samræmingu hönnunargagna og endurskipulagningu eldra húsnæðis.  Er þeim ætlað að finna tækifæri og skapa verðmæti fyrir eigendur fasteigna. Arkitektar skipuleggja hönnunarsamkeppnir fyrir ýmsa aðila og vinna fyrir þær forsagnir og forsendur þar sem áherslur, þarfir og óskir viðkomandi aðila koma fram.

Skipulag

Á sviði skipulags sjá arkitektar m.a. um mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana svo sem svæðisskipulag, aðalskipulag sveitarfélaga og deiliskipulag.. Arkitektar sjá um skipulag hverfa og borga, gerð aðalskipulags, rammaskipulags og deiliskipulaga fyrir sveitafélög, þar sem hugmyndafræði og framtíðarsýn þeirra er ætlað að koma fram.

Ráðgjöf

Loks er ráðgjöf fjölbreytt starfsemi sem arkitektar annast. Arkitektar gera m.a. húsrýmisáætlanir, skráningartöflur, eignaskiptayfirlýsingar og -samningar. Við stærri og minni framkvæmdir sjá arkitektar um að aðstoða við þarfagreiningu, hönnunarstjórn, útboð og umsjón með þeim, verkefnisstjórn, eftirlit með framkvæmdum, byggingarstjórn og gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlanir. Loks vinna þeir rannsóknir og þróunaráætlanir á sviði skipulags og byggingarmála, annast uppmælingu eldri húsa og gera reyndarteikningar bygginga. Þá gera þeir eldvarnaruppdrætti, aðstoða við efnis- og litaval og hvers kyns ráðgjöf viðvíkjandi hönnun, rekstri og viðhaldi bygginga, einnig endurskipulagningu vinnustaða og viðhaldsáætlanir fyrir einstaklinga fyrirtæki og sveitafélög.

Menntun og menning

Arkitektar koma að kennslu í listaháskóla, mótun kennsluefnis fyrir grunnskóla og franhaldsskóla, sem og kennsla í hönnunargreinum. Endurmenntun á sviði arkitektúrs og skipulags, rannsóknir á sviði bygginga og skipulags, t.d. á sjálfbærum arkitektúr og skipulagi.  Þátttaka í umræðum um arkitektúr er mikilvægt tæki arkitekta, til að halda við þeirri vitund að góður arkitektúr endurspegli menningu þjóðarinnar.

Ýmis önnur verkefni arkitekta

Hönnun á Sviðsmyndum fyrir Leikhús, Húsgagnahönnun, Hönnun á sviði Kvikmynda, Gerð Þrívíddar Módela og Tölvugerðs Sýndarrýmis.

Hlutverk Arkitekta eru allt frá alhliða umsjón hönnunar og framkvæmda fyrir hönd verkkaupa niður í að sjá einungis um hönnun til framkvæmda eða útboðs.

Arkitekt á að geta aðstoðað verkkaupa við að greina þarfir, koma með tillögur að lausnum, gera fjárhagsáætlun, útboðsgögn og verkáætlanir, sjá um hönnun, framkvæmdareftirlit eða útboðsframkvæmdir.

Í hefðbundnu fyrirkomulagi framkvæmda er arkitektinn tengiliður verkkaupa við verkið og hans aðal ráðgjafi. Þó að verkkaupi viti ekki annað en að húsnæðið henti ekki lengur þörfum starfseminnar, þá er það næg ástæða til að hafa samband við arkitekt. Hann á að getað aðstoðað við greiningu á vandanum, ráðleggingar um breytingar eða flutning og aðstoðað við val á öðrum ráðgjöfum allt eftir umfangi verksins.

Rétt er að benda á að hentugt getur verið á stærri verkum að ráða einn arkitekt í skemmri tíma til að aðstoða við að skilgreina þarfir og jafnvel útbúa gögn sem síðan eru grundvöllur fyrir umfangsmeira örútboð til vals á endanlegum arkitektum á verkið.

Sá fyrsti getur þá haldið áfram sem eftirlitsaðili verkkaupa meðan á framkvæmdum stendur ef þannig stendur á.

 

#3    Af hverju arkitekt?

Arkitekt hefur með námi sínu og reynslu öðlast skilning og þekkingu á umhverfi sínu og þeim möguleikum sem það hefur upp á að bjóða. Hann þarf að samtvinna þarfir verkkaupa og áhrifa á umhverfið. Ferlið er langt; frá hugmyndavinnu, tillögugerð, gerð aðalteikninga, verkteikninga og útboðsgagna til verkumsjónar að fullbyggðu mannvirki. Mikilvægast er að greina þarfir verkkaupa strax í upphafi, væntingar hans og óskir. Arkitektinn klæðskerasaumar lausn viðfangsefnisins fyrir verkkaupa og byggir það á þekkingu sinni og aðferðafræði til að leysa viðkomandi verkefni.

Með góðum undirbúningi er sett takmark að góðri lausn viðfangsefnisins.

Starf arkitekta er ráðgjöf. Góður undirbúningur að löngu ferli er oft forsenda ódýrari framkvæmdar.  Samhæfing þarfa og óska við aðstæður þarf að skoða í samhengi við möguleikann á hagvæmari framkvæmd.  Góð stýring á framkvæmd er oft kjarninn í verkinu, þar sem fundinn er verðmætasköpun góðrar hönnunar.  Góð hönnun mælir kostnað framkvæmdarinnar á líftíma hennar og tekur tillit til (atriða s.s.) sjálfbærni, sem dregur úr rekstrarkostnaði á líftíma hennar.

Arkitektinn finnur og skilur kjarnan í verkinu. Arkitektinn ætti því helst að fylgja verki sínu til enda, ef tryggja á að verðmætasköpun sú sem hönnunin byggir á skili sér til verkkaupa.

Það hefur sýnt sig að metnaður arkitekta og verkkaupa á vel saman. Verk arkitektsins eru sýnileg, árum og jafnvel áratugum saman og því hans faglegu hagsmunir að lausnirnar séu honum til sóma og endist eins og til er ætlast. Stundum er því haldið fram að arkitektar hafi einmitt þess vegna tilhneigingu til að koma með dýrar lausnir eða vilja gera meira en þörf er á. Þarna skiptir máli að verkkaupi og arkitektinn vinni saman að raunhæfum kostnaðaráætlunum og markvissri þarfagreiningu, þannig að báðir viti að hvaða marki er verið að stefna, bæði í umfangi og kostnaði. Sé það gert er metnaður arkitektsins tryggasta ábyrgð á gæðum sem fæst á verkið.

Af hverju að ráða Arkitekt: Er verið að vina að húsi yfir höfuðið eða heildar umgjörð heimilislífsins, eða starfsins. Tæknilegar úrlausnir eru unnar af Arkitektum, en ef það er eina úrlausnaratriðið eru fleiri sérfræðingar sem það geta unnið.

 

#4    Hvernig vinnur arkitekt?   

 

skilja verkefnið

Arkitekt verður að vera fær um að greina tiltekið verkefni. Þess er krafist af byggjanda og notanda hússins. Taka verður tillit til verktaka, eiginleikum byggingarinnar, staðsetningu, skipulag og uppbyggingu. (sjálfbærni) og hagfræði. Hvers konar byggingu er verið að hanna, og til hvaða nota? Hvaða verkefni þarf að leysa til að byggingin virki sem skildi? Hvaða aðstaða og hvaða rými á að vera fyrir hendi í bygginunni.

Til að skilja hlutverk (og möguleika út frá notkunn, mannlífi upplifun fólks á borgarumhverfi byggingarinnar verður arkitektinn að kynnast „anda staðarins„. Hann verður að greina þau tækifæri sem felast í verkefninu. Hvert er einkenni staðarins, landslagsins og byggðarinnar í kring? Hvernig á að taka tillit til nærliggjandi bygginga? Inn í hvaða skipulag er verið að byggja? Góður arkitekt nær að sameina þetta allt. Það er mikil ábyrgð sem liggur vinnu arkitekta. Hann þarf að fara vel með fjármuni verkkaupans.

Langt ferli

Ferlið frá fyrstu skissum til endanlegrar byggingar er langt. Þegar búið er að skilgreina verkefnið verður að finna heildstæða hugmynd fyrir form mannvirkisins, velja efni og ákvarða lausnir niður í smáatriði. Hugmyndin er síðan og kynnt með teikningum og líkönum. Eftir þeim er hún metin. Í þessari vinnu leitar arkitekt leita ráða hjá verkfræðingum, hönnuðum og iðnaðarmenn um byggingarefni og tæknileg atriði.

 

#5    Hver er virðisauki af vinnu arkitekta?

 Allt að 2/3 hlutar af þjóðarauð landsmanna eru bundnir í mannvirkjum á Íslandi. Það gefur því auga leið að góður og faglegur undirbúningur skiptir höfuðmáli. Góð hönnun einstakra húsa og vandað skipulag borga og hverfa leggur grundvöll að góðri nýtingu þess fjármagns. Að sama skapi eykur lélegur undirbúningur líkur á kosnaðarsömum byggingargöllum, illa skipulögðum og óhagkvæmum húsum og hverfum. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru fólgnir í skipulagi mannvirkja og eru góðar lausnir því verðmætar til skemmri og lengri tíma.

Einnig liggur mikill hagur í því að endurskipuleggja gömul hverfi. Þar felast oft tækifæri sem geta gerbreytt ásýnd hverfa og lífsgæðum íbúa og eykur verðgildi eigna.

Vel hannað hús þýðir í flestum tilvikum góða nýtingu á rými, þar sem er gott flæði sem styrkir starfssemi hússins og leiðir af sér heilbrigði og vellíðan íbúa.

Um skipulag og borgarhönnun má segja það sama. Vel skipulagt hverfi þýðir góða nýtingu á dýrmætu landi, minni kostnað við lagnir og götur. Góður borgararkitektúr ýtir undir jákvæð félagsleg samskipti og styrkir tilfinningu fyrir staðnum.

 

Hvernig eykur vinna arkitektsins virði verkefnisins ?

Hvers virði er vinna arkitekta: fyrir almenning, fyrir starfsemi og fyrirtæki, fyrir einstaklinga, opinbera aðila og fyrir umhverfið, fyrir samfélagið og menningu þjóðar?

Hvernig er hægt að skapa meiri virðingu fyrir starfi og vinnu arkitekta og hinum ólíku ríkjandi sjónarmiðum um hönnun hins manngerða umhverfis?

Hvaða virðisauka veitir góður arkitekt?

Góður arkitekt leysir ekki einungis niðurröðun rýma svo allt komist fyrir. Hann gerir það á þann hátt að það hlúir að starfsseminni, eykur samskipti þar sem það á við og tryggir næði annar staðar. Góð hönnun dregur fram kosti s.s. útsýni, birtu og flæði. Í haganlegri lausn geta rými fengið lánað pláss hvert hjá öðru og bæði virkað stærri fyrir vikið. Rétt staðsettir gluggar tengja starfsmenn við umhverfið og veita hvíld. Vel hannaðar innréttingar geta gegnt margþættu hlutverki og verið á sama tíma hljóðskermun, rýmismótun, geymsla og skúlptúr, allt í einu. Góður arkitekt veit að fundarherbergi getur með litum, stærð gegnsæi og efnisvali þjónustað mjög ólík fundarform, allt frá tveggja manna óformlegu tali til formlegra samningafunda. En fyrst og fremst bregst góður arkitekt við þörfum verkkaupa og nær að uppfylla þær í hönnun sem er heildstætt verk sem dregur fram þann mesta virðisauka sem völ er á fyrir starfsemina sem kostur er á.

 

#6    Hvers má krefjast af góðum arkitektúr

 -Hámarkar gæði byggðar

-Sjálfbærni, (staðardagskrá, Reykjavík græn borg)

-Reykjavík hönnunarborg (Reykjavíkurborg markmið)

-Nýsköpun í byggingariðnaði

-Endurgerð og viðhald húsa

-Sjálfbært borgarskipulag

-Menntun og menning

-Mótun menningarstefnu

-Nýting húsnæðis

-Finna tækifæri fyrir áframhaldandi þróun borgarinnar

-Ráðgjöf hvað varðar:

-Sparnaði til langs tíma

 

Arkitektúr og sjálfbærni

Arkitektar eru í fararbroddi í þróun vistvænna skrefa.  Meðal verkefna er aðlögun og innleiðing alþjóðlega umhverfisstaðla ss BREAM og LEED Markmið Ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar , sjá Mannvirkjastefnu í Mannvirkjagerð.

 Ábyrgð

Arkitektar sem aðalhönnuðir bera samkvæmt byggingarlögum ábyrgð á samræmingu allra hönnunargagna.  Byggingariðnaðurinn er flókinn og stór iðnaður, sem skapar þjóðarbúinu um 10% af þjóðartekjum sínum.  Margir aðilar koma því að bera ábyrgð á hinu byggða umhverfi.  Hönnunargögnin ein eru ekki forsenda góðrar hönnunar og/eða góðs umhverfis, en það er alltaf ósk arkitekta að leitast skuli við að gera góð mannvirki sem eru til virðisauka fyrir bæði verkkaupa og umhverfi byggingarinnar.
#7    Hvert er nám arkitekta

Nám arkitekta snýst m.a. um: hugmyndafræði, byggingarlistasaga, rökhugsun, aðferðafræði, vinnuferli, þróun hugmynda, gagnavinnslu, kynningu hugmynda, ………..

Á áratugunum 1980 – 2000, sem og þeim á undan, var nokkur fjölbreytni í því hvar íslenskir arkitekta námu arkitektúr. Skandinavía hefur alltaf verið þar ofarlega á blaði, en það hefur oft legið beint við að nema í okkar gamla „bakgarði“.

Um 67,3% arkitekta námu þar á þessum árum, en á sama tíma um 11,7% annarsstaðar á meginlandi Evrópu og um 21,0% í enskumálandi löndum beggja vegna Atlantshafsins. Eftir að fyrrihlutanám hófst í Listaháskóla Íslands hefur þetta breyst nokkuð.  Á árunum 2004-2005 námu 25,5% arkitekta á Íslandi, um 51,9% í Skandinavíu og þá einungis í Danmörku, um 15,1% á meginlandi Evrópu sem nú fór að stækka til austurs, en einungis um 7,5% í enskumælandi löndum.  Árin 2008-2009 hafði svið arkitektanáms breyst mikið og höfðu nokkrir numið á öðrum stöðum en áður þekktist, s.s. í Ástralíu og í Eistlandi.  Nemendur á Íslandi voru þá um 22,7% og í Skandinavíu voru um 48,7% nemenda, á  meginlandi Evrópu um 10,4% og í hinum enskumælandi löndum um 18,2%.

Á milli 40 – 50% nemenda í arkitektúr hefur að jafnaði numið í Danmörku. Bandaríkin hafa verið með 8 – 13% og England um 7 – 9%, nema stuttu eftir aldamót var þetta hlutfall arkitektanema allt að um 3%. Hið sama er að segja um hin hefðbundnu námslönd meginland Evrópu, en hlutfall þar er orðið allt að 3 – 4% í löndum svo sem Frakklandi og Þýskalandi.

 

MENNTUN

Nám í arkitektúr hófst í Listaháskóla Íslands árið 2002 og fer fram í Hönnunar- og arkitektúrdeild. Um er að ræða fyrrihluta náms og er það þrjú ár, sambærilegt BA námi úr erlendum háskólum. Seinni hluti náms tekur í því framhaldi tvö til þrjú ár í erlendum arkitektaskóla, eftir þeirri gráðu sem viðkomandi vill afla sér. Tvö ár í MA gráðu og þrjú ár í M-Arch gráðu.  Einnig er hægt að stunda heildarnám í erlendum háskóla til fimm ára sem kallast B-Arch.

Námið tekur jafnt til bóklegra og verklegra þátta byggingarlistar og skal það tryggja að viðkomandi öðlist hæfni og þekkingu á sviði byggingarlistar sem fullnægi bæði fagurfræðilegum og tæknilegum kröfum.  Arkitekt skal kunna að laga byggingar að þörfum manna og taka tillit til umhverfisins.  Arkitekt skal hafa fullnægjandi þekkingu á efnis- og tæknilegri útfærslu bygginga og hafa skilning á burðarþol og verkfræðiútreikningum.  Arkitekt skal hafa fullnægjandi þekkingu á skipulagi og áætlunargerð.

 

LISTAHÁSKÓLI ÍSLANDS

Hönnunar- og arkitektúrdeild Nám í arkitektúr er þriggja ára nám, 180 einingar. Nemendur ljúka að jafnaði 30 einingum á önn. Að loknu námi og tilskildum prófum og verkefnum hlýtur nemandi B.A. gráðu sem telst vera fyrri hluta próf í arkitektúr. Lögð er á hersla á að nemandinn öðlist almennan skilning á hugmyndafræði og þeim forsendum sem liggja til grundvallar faginu. Einnig að nemandinn öðlist hæfni til að rökstyðja fræðilegar og hagnýtar úrlausnir. Náminu lýkur með lokaverkefni sem sýnt er á útskriftarsýningu. Auk þess skrifa nemendur ritgerð til B.A. prófs undir leiðsögn leiðbeinanda.

Stefna og markmið – Stefna hönnunar- og arkitektúrdeildar er að miðla og kenna aðferðarfræði við lausn viðfangsefna á grundvelli breiðrar hugmyndafræði. Framlag deildarinnar er að vera framarlega í tækni og hugmyndafræði sem notast við breiða og opna aðferðarfræði við lausn viðfangsefna. Deildin vill vera sterkt afl í íslensku samfélagi á ört vaxandi sviði upplýsingatækni og sköpunar.

 

#8    Hvað er hönnun og hvað er arkitektúr?

Hvað er Arkitektúr: Er öll hönnun bygginga arkitektúr, eða hvað ………

Byggingartæknileg teikning skýrir einungis það sem þarf til að hús standi uppi og haldi veðri og vindum, en gerir engar kröfur um gæði vistarveranna fyrir þá sem hana umgangast. Lítið er vísað til „gæða“ sem slíkra í Byggingarreglugerð. Hönnun bygginga er mun flóknari en svo og einnig það hvort góð hönnun geti talist til Arkitektúrs enn frekar.

Hver er Framtíð Arkitekta……………?

Hver eru hagræn áhrif á skapandi greinar……………?

Hvað er hægt að gera með arkitektúr, til að skapa áhugarvert umhverfi……………?

 

#9    Hvað kostar hönnun?

 Hvað kostar að teikna hús? – vinnustundir á týpu húsa, stærð, gæðastandard og útgangspunktar taxta hönnuða. Eðlilegast er hér að vísa til FSSA.

Byggingarkostnaður húsa er ágætur viðmiðunargrundvöllur fyrir því hvað skal áætla fyrir hönnun þeirra. Áætlaður byggingarkostnaður er reiknaður fyrir ólíkar tegundir húsa og ólík að gæðum.  Hlutfall hönnunar er því á reiki miðað við hvað á að hanna, hversu miklum gæðum er búist við og líka því hversu mikið á að hanna fyrir viðkomandi framkvæmd.  Því getur viðskiptavinurinn i raun ráðið, eftir því hversu vel hann telur hag sínum borgið með nánu samstarfi við hönnuð sinn í gegnum allt ferlið þar til byggingin er tilbúin.

Mikilvægt er að byggjendur átti sig á því að hönnun er hluti af byggingarkostnaði. Verkefnið hefst því ekki með hamarshöggi, heldur pennastriki.  Fjármögnun verður því að liggja fyrir þegar hönnun hefst, því hönnun er þjónusta sem greitt er fyrir og er kostnaður af henni oftar en ekki verulegur, þó hin raunverulega framkvæmd sé oftar en ekki um og yfir 90% af byggingarkostnaðinum öllum.

„Hönnunarmenu“ um það sem þarf að vinna til að fá verkefni samþykkt og byggt vs. það sem hægt er að vinna, umfram það sem þarf, að sérstaki ósk verkkaupa…………

Algengt er orðið að þegar kostnaður verkefna er skoðaður, er það í samhengi við fyrri vinnu og reynslutölur af þeim um þóknun. Áætlaður er tímafjöldi hönnuða af viðkomandi tegund verkefnis og reiknaður á meðaltalstaxta viðkomandi hönnunarfyrirtækis.  Niðurstaðan hefur oftar en ekki orðið svipuð og hefur því orðið úr að fyrir mismunandi verkefni, að stærð og flækjustigi, hefur komist á prósentureikningur af áætluðum byggingarkostnaði framkvæmdarinnar sem á að hanna.  Flestir ráðgjafar vinna með svipaðar fjárupphæðir, sem áætlaðar eru til greiðslu fyrir vinnustundir af svipaðri vinnu.  Prósentuútreikningar fyrir vinnu arkitekta hefur t.d. með það að gera hverjar reynslutölur eru að viðkomandi framkvæmd, í samhengi við stærð og gerð byggingarinnar og svo það hvað hægt er að áætla mikið vinnuframlag í vinnustundum til að klára hönnun byggingarinnar með hag verkefnisins að leiðarljósi.  Það hversu mikið verkefnið er unnið getur hinsvegar haft með það að gera hversu mikill hönnunarkostnaðurinn er og því getur verkkaupi sparað sér einhverja upphæð með því að láta ekki hönnuðinn klára verk sitt með þeim hætti sem gengur út frá fullri þjónustu hans.  Magn ráðgjafar og kostnaður hefur því m.a. með fyrirfram ákveðna þörf viðkomandi byggjanda að gera til að klára verk sitt og því hversu mikið hann vill láta skilgreina eða hanna það til að þörfum hans og óskum sé fullnægt í undirbúningi að framkvæmdinni.  Almennt er reynsla stærri byggingaraðila og þeirra sem best til þekkja sú, að ekki er talið sérstaklega góð sparnaðartækni að minnka ráðgjöf hönnuða um of.

 

#10  Hvernig velur maður arkitekt?

 Engin ein rétt leið er til við val á arkitekt. Almennt eru verkkaupar hvattir til að leita til höfundar byggingar, sé um að ræða breytingar á henni og höfundurinn enn starfandi. Er slíkt sjálfsögð virðing við bygginguna sem hugverk, í anda stefnu stjórnvalda og líklegra til að viðhalda heildarmynd verksins. Á heimasíðu Arkitektafélags Ísland ai.is má finna lista yfir byggingar sem ríkið á eða leigir og höfunda þeirra. Dugi það ekki má einnig finna höfunda á aðaluppdráttum hjá viðkomandi byggingafulltrúa.

Byggingalist er, eins og nafnið gefur til kynna, listgrein. Því samþykkti Ríksstjórn Íslands Menningarstefnu í Mannvirkjagerð sem lýsir því hvernig Ríkið og stofnanir þessi hyggjast haga sér við byggingaframkvæmdir þannig að það styðji við þá menningararfleifð sem felst í byggingalist, nýrri og eldri.

Sé almennt verið að leita að arkitekt er gott að byrja á heimasíðum þeirra og skoða hvort viðkomandi hafi reynslu af sambærilegum verkefnum, hafi aðra/mikla reynslu af hönnun almennt, og þá jafnvel flóknari verkefnum. Sömuleiðis má kynna sér reynslu fyrri verkkaupa og síðast en ekki síst, þá gæðamælikvarða sem felast í samkeppnisverðlaunum, viðurkenningum, birtingu og öðru slíku.

 

# 11   ARKITEKTÚR OG SAMFÉLAGIÐ !

Arkitektúr hefur marga snertifleti við samfélagið. Götur, torg, gróður og hús  mynda umgjörð um líf okkar. Íbúum borga heims fer stöðugt fjölgandi og framtíð þess vistkerfis sem borg er sífellt mikilvægari.

Það eru margar spurningar sem vakna þegar við það að meta og móta umhverfi okkar. Hvernig viljum við búa, hvernig á hverfið okkar að vera, hvað er góð borg og bær. Hvernig er best að byggja í þeirri veðráttu sem ríkir hér. Hvaða möguleikar felast í þegar byggðu umhverfi? Hvernig lögum við þau mistök sem gerð hafa verið. Borg og bæir eru og eiga að vera í sífelldri þróun. Það er því mikilvægt að öflug starfssemi sé í því hvernig byggð hverfi eiga eftir að þróast? Hvernig skipuleggjum við borgir og bæi á sjálfbæran hátt? Hvernig skipuleggjum við borgir og bæi þannig að við nýtum sem best dýrmæt byggingarefni, spörum sem mesta orku, sköpum kerfi sem er sjálfu sér næg  og því hagstæðust til framtíðar.

Hvernig eru góð borg og góð hverfi, hvaða eigileikar og gildi skipta þar máli. Hverju ber að ná þar fram? Mikilvægt er að leggja áherslu á ábyrga hönnun byggða á sjálfbærni. Í því ljósi hallast menn að því að vel hönnuð hverfi eru þétt og fjölbreytt í smáatriðum, vel tengd með margþætta blöndun á starfssemi. Sveigjaleiki í skipulagi er einnig mikilvægur  með möguleika á áframhaldandi  þróun með grósku og vellíðan íbúa að leiðarljósi. Styrkja umgjörð um bíllausan ferðamáta. Hægt er að auka líkur á vel hönnuð hverfi með því að hafa samkeppnir um skipulag og má líta á það sem góða fjárfestingu. Stöðva þarf útþenslu borgarinnar en byggja upp á illa nýttum svæðum  innan borgarmarka. Oft er talað um staðarmótun þegar fjallað er um borgarmál. Staðarmótun snýst ekki um hönnun bygginga, heldur um að móta lifandi, áhugaverða, aðgengilega, vistvæna staði í borgum og bæjum. Það er því mikilvægt að umræða um framtíðarsýn bæja og borga, og rannsóknir á þeim sé lifandi og öflug.

Sjálfbærni og byggingarlist

  • Samfélagið og borgarrýmin, götumyndir, torg, samspil gróðurs og byggðar
  • Samfélagið, sjálfbærni, hlutverk arkitektsins
  • Framtíðasýn
  • Skapa rýmin sem er umgjörð mannlífsins
  • Arkitektúr endurspeglar gildi samfélagsins
  • Góður borgararkitektúr,gæði í umhverfi borga, sparsöm notkun
  • Arkitektúr og sjálfbærni

Hönnun Borga:

Á síðustu misserum hefur fókuserast það sjónarmið, að þegar talað er um sjálfbærni í byggingarlist, verði að tala um það á víðari grundvelli en einungis í hönnun húsa. Mikilvægi þess að borgarhlutar eða borgin í raun öll sé skoðuð í samhengi sjálfbærni hefur hlotið aukið gildi. Til þess að geta skoðað borgarsamfélagið með þessum augum, er mikilvægt að rætt sé um BorgarArkitektúr, ekki einungis skipulag borga, heldur hönnun þeirra og samhengi. Heildarumhverfi hins byggða umhverfis þyrfti þannig að skoðast, bæði í sinni víðustu mynd, sem og þrengri. Til þess að svo megi verða, þarf að skoða og ræða hver hin eiginlega framtíðarsýn sé í myndun hins byggða umhverfis.Arkitektafélag Íslands hefur ályktað um málefni sem markaðsnefnd félagsins hefur í þessu samhengi kynnt hugmyndir að og kallað BorgarÞróunarStofu og er ætlað að vera miðstöð þessarar skoðunar. Hugmyndin hefur verið að þar komi saman fagaðilar og stjórnendur, til vinnu að sameiginlegri framtíðarsýn höfuðborgarsvæðisins alls og á vegum Samtaka Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu.

SAMHENGI:

Arkitektinn<<>>Byggingarlistin<<>>Neytandinn

Byggingalist<<>>Samfélagið/Mannlífið

 

Share this Post

Comment

Tags