loading

UM ARKITEKTÚR – ÞÁ & NÚ

August 4, 2016·by ivar·in Reflections & Thoughts

Um Menningar-einræðistilburði “leiðtogans”.

 

Listir & Arkitektúr – spegill Endurreisnarinnar

Á sama hátt og að LIST hefur ekki með það að gera, hversu „fallegt“ málverk er, snýst ARKITEKTÚR ekki um „fegurð“ bygginga, eða því hvernig gluggasetning er gerð í steypuveggi!

Arkitektúr snýst frekar um Hugmyndafræði í Rýmismyndun og því hvernig byggingar geta auðgað vist manna sem umgangast þær og jafnvel eiga þar heima.  Þetta á að gera byggingar „góðar“, þó þær geti líka orðið við það aðlaðandi.  En það sem skiptir meira máli, er að byggingar séu hluti af stærri heild; bæði menningarlegu og umhverfislegu samhengi.  Á þennan hátt þarf góður Arkitektúr að vera i samhengi, en einmitt í því liggur „fegurðin“.

Allt frá tímum endurreisnarinnar á Ítalíu og með útgáfu Leon Battista Alberti árið1452, “De Re Aedificatoria” sem kölluð hefur verið “Ten Books on Art and Architecture”, hefur þjóðfélagsgerð, framþróun og sá spegill sem listsköpun og arkitektúr gefur, farið hönd í hönd og sem órjúfandi hluti hvors annars.

Þeir sem ekki betur þekkja til, telja kannski að þetta séu einhver sannindi um það hvernig list og arkitektúr “á” að vera, en Endurreisnin snérist bara alls ekki um list eða arkitektúr, heldur um að þróa samfélagsgerð og menningu, sem hafði svo áhrif á og endurspeglaði listsköpun þess samtíma.

Arkitektur – spegill endurreisnarinnar þróaðist líka; byrjaði sem afturhvarf til hinna “einföldu” og “sönnu” forma Forn Grikkja og Rómverja, en við þroska menningarsamfélaga þess tíma, þróaðist í gegn um Baroque til Ný-Klassíkur, sem finna má með einhverju sniði í öllum menningarsamfélögum hins vestræna heims og þá með “sínu” sniði, áhrifum heimaslóðarinnar, aðstæðum, umhverfi og efnismöguleikum.  Sum þessara þjóðfélaga eru samfélög afturhalds, en önnur framþróunar.  En, það sem sammerkt er með þeim sem eru afturhalssöm er, að þau reyna að skilgreina sig með einhverjum hætti þóknanlegum háværustu borgurunum, í stað þess að horfa með opnum hug til möguleika framþróunar, með vísun í þekkingu og sífelldri endurskoðun á þekktum gildum.

Í gegn um þróun hinna klassísku stefna í arkitektúr gerðust ýmsir hlutir í sögunni, sem ollu því að það hvað við endurspeglum þróaðist.

Hér er smá upptalning á nokkru því helsta:

Kenningar um að jörðin sé ekki flöt og að hún sé ekki miðdepill alheimsins, iðnbyltingin, konur eru líka menn, Lúther og endurskilgreining kristinna trúarbragða, Columbus til Ameríku, byggingar fyrir almenning, borgarsamfélög, byggingartækni; eins og stál, steypa, lyftur, gler, rafmagn og ljós, útbreytt lýðræði, tvö heimsstríð til viðbótar öllum hinum, menntun almennings, vísindin almennt og þróunarkenningin, sjálfrennireiðar, flug og samgöngur almennt,  millistétt, tjáningarfrelsi, ímynd jafnréttis, fjöl- og myndmiðlar, tölvu- og upplýsingaöld, internetið, “nútíma” tón-, rit-, mynd- og byggingarlist – Velkomin, þetta er Nútíminn!!!

Engin furða að við byggjum almennt ekki byggingar sem endurspegla Menningu hinnar Ítölsku Florence borgar 15. aldarinnar, eða einhverja útgáfu ný-klassíkur, sem ættuð er frá menningarsamfélögum Evrópu fyrri tíma, með viðkomu í Danaveldi fyrir tíma sjálfstæðis okkar sjálfra.

Þó við kunnum að meta Mozart þykir okkur ekki síðri – Elvis, Sinatra eða Miles og þó við kunnum við að meta myndlist Gogh og Matisse, telja sum okkar ekki síðri Picasso, Pollock eða Rothko.  Í arkitektúr vitum við hverjir Brunelleschi og Wren voru, en mörg hundruð árum síðar kunnum við að meta verk Goudi, Wright, Corbusier og nú jafnvel Gehri, Foster, Piano og Mayne.

EN, þeir sem ekki fylgjast með kunna kannski engin þessara nafna, þó einungis síðastnefndu arkitektarnir séu enn lifandi og því ekki gerð tilraun til að koma í upptalningunni að hinum eiginlega nútíma annarra listgreina.

Nútíminn; Menning & Listir

Á milli heimsstyrjalda síðustu aldar var CIAM (Congres International d´Architecture Moderne) stofnað, en var það til að skoða það með hvaða hætti mætti bregðast við breyttri þjóðfélagsgerð, þörfum hennar og óskum.  Á sama tíma voru listir í mikilli þróun, en margt var tengt í því hvernig bæði listir og arkitektúr spegluðu menningu þessara breyttu tíma.  Hugskot listamannanna var annað en áður hafði verið, endurspeglaði nú hugtök, hugar- og þjóðfélagsástand menningarsamfélaganna.  Byggingargerð endurspeglaði það frekar að nú vildu fleiri eiga heimili, fjölgun í millistétt og efnahag hennar, möguleika sem fólust í nýrri byggingartækni, þéttingu borga, en ekki síst þarfir, óskir, draumar og menningu hins nýja borgarsamfélags.

Heimsýningar helstu vestrænna stórvelda, sem hófust eftir iðnbyltingu, hafa alltaf snúið að því að sýna hvers þau eru megnug og eru þar listir og arkitektúr yfirleitt nýtt til endurspeglunar á því hversu menningarsamfélög þjóðanna hafa þroskast með samtímanum.

Í framhaldi af þessu, hafa ýmis tækifæri gefist til að sýna fram á trú stjórnenda á þjóðfélag sitt og menningu.  Við tvöhundruð ára afmæli lýðræðis Frakklands árið 1989, gerði Francois Mittterand heiminum kunnug með “Les Grands Projets” hvernig hægt væri að gera andlitslyftingu á menningarsýn Frakka nútímans, með stórfenglegum hætti.  Ósk hans um menningarleg arfleifð mátti best skýra með hans eigin orðum, þíddum á ensku “A cultural society is judged by the success of its architecture.  With hope, we will manage, to write in space and produce in form, the ideology of our culture”, sem útleggst eithvað á þessa leið: Menningarsamfélag er dæmt af velgengni arkitektúrs þess. Það er von okkar, að okkur muni takast, að skrifa í rými og byggja í formi, hugmyndafræði menningar okkar.

Á svipuðum tíma, eða ári áður, gaf Prince Charles út bók sína “A Vision of Britain”, en þar kemur fram álit prinsins á byggingarlist, sem speglaði vissa minnimáttarkennd sem hafði grafið um sig með þjóðar hans, síðan hún tapað stöðu sinni sem heimsveldi.  Eina ráð prinsins, sem ekki hafði mikla þekkingu til, var að horfa til löngu liðinnar tíðar heimsveldisins og óska endurgerðar þess spegils, sem menning fyrri tíma hafði til að sýna mátt sinn.

Bretar voru á áttunda og nýunda áratugnum hvað fremstir í röð þeirra sem þróuðu arkitektúr samtímans, þar fóru saman hátækni framfarir og vilji til framfara, sem leiddu í framhaldi til umræðunnar um sjálfbærni.  Það tók Breta tíu ár að losna undan oki prinsins, en eftir stofnun National Lottery, sem áætlað var að styðja uppbyggingu menningarverkefna, var við aldamót ásýnd á umhverfi í Bretlandi, sérstaklega Lundúnarborgar orðið annað.  Ekki síður var þá trú breyta á styrk sinn orðin endurnýjuð.  Hún snéri ekki að heimsveldinu eða horfinn tíma þess, heldur á styrk nútímans og möguleika hans til að bæta umhverfi okkar til framtíðar.

Stjórnvöld og Menningarsamfélagið

Engu skiptir hver menntun leiðtoga okkar er, ef til staðar er víðsýni sem leiðir til möguleika á skilningi fyrir örðum og vilja til að gera vel.  Það að gera vel, snýst þá ekki um að gera hug allra að þínum, heldur það að skapa betra umhverfi fyrir samfélagið, hlúa að menningu þess og skilja eftir arfleifð samtímans.

Fyrir nokkru var haldin sýning í Hayward Gallery í London, sem hét “Art and Power – Europe under the dictators 1930-1945”.  Eins og nafnið gefur til kynna var sýningin og útgáfan sem henni fylgdi, um það hvernig einræðisherrar höfðu áhrif á menningu þjóða sinna og þá í gegn persónulega sýn sem var með yfirgangi, gerð að stefnumörkun í listum og arkitektúr.  Var það sammerkt þessum einræðisherrum –istanna allra; Fas-, Nas- og Kommún-, að þeir töldu sig geta ákveðið fyrir almenning hvað væri list, hvað væri “gott” og hvað “vont”, en ekki síður hvernig skildi í framhaldinu spegla þá menningu sem þeir sjálfir töldu lýðnum æskilega.  Þeir brenndu bókmenntir og list og “skipuðu fyrir” með mikilli ræðusnilld, það hvert þjóðfélagið skildi halda.  Þeirra “rétt” væri hið eina sanna og allt annað skildi með öllum tiltækum ráðum talið óboðlegt, í það minnsta skildi ekki leyfa um það frekari umræðu.  Ef einhver mótmælti var hann ekki talinn með- og því á móti samfélaginu.  Á einverjum tíma var það líka ávísun á dauða, en nú þykir nóg að berja andsvarið eða spurninguna niður með “ræðusnilld”, fjölmiðla “árás” eða heift einræðisherrans og tilvísun til “réttvísi”. (munið Bush – “If you are not with us, you are against us – let´s „free“ the world).

Metnaðarfullt samfélag speglar menningarsamfélag sitt.  Þeir stjórnendur sem telja sig þurfa að horfa hundrað ár afturábak til að finna spegil, eru með gjörðum sínum að lýsa yfir vantrú sinni, jafnvel fyrirlitningu, á samtímanum og ættu því ekki frekar en einræðisherrar tuttugustu aldarinnar, að reyna að koma hugskoti sínu fyrir í því hvernig þróa skuli samfélag okkar eða umhverfi. Þau áhrif eru vond og menn ættu að leita að öðrum leiðum til að vinna “arfleifð” sína eftir, því sú afturhaldssama mun annaðhvort verða aðhlátursefni nánustu framtíðar, eða í það minnsta gleymast. Menn skulu ekki gleyma því að magn áhrifa er ekki endilega gæði, eins og varð með menningarstefnur einræðisherra tuttugustu aldarinnar og einnig minni spámanna, sem hafa slíka tilburði sýnt.

Þeir sem tönglast mest á því að við verðum að bera virðingu fyrir fortíðinni, til að geta komist áfram, eru að misskilja hugmyndafræði framsækinna þjóðfélaga.  Virðingin er grunnur til að byggja á, ekki afturhvarf til fyrri aðstæðna, heldur byrjunarpunktur þróunar, sem við höfum löngu hafið.  Fortíðin er samhengið sem við byggjum nútíðina á, en ekki heilagur sannleikur.  Nú skulum við draga saman þessa ólíku punkta um menningu, byggingalist og stjórnmál.  Það er í anda einræðisherra að vilja endurspegla þjóðfélag fortíðarinnar, en neita fólki um það besta sem nútíðin hefur að bjóða upp á.  Það að loka á framþróun, vegna þess að hún er óþekkt og jafnvel uppfull af mistökum, er snautt trausti á það hvers við erum megnug í dag.  Það að byggja spegil menningar, sem annaðhvort var aldrei til, eða var einungis ósk forferða okkar, er minnimáttarkennd þeirra sem ekki þora.

Vanvirðing við Menningu Samtímans

Á fyrsta apríl las ég forsíðublaðagrein og var ekki öruggur á því hvort um væri að ræða apríl-gabb eða auman raunveruleika.  Eftir framgöngu fyrrum borgarstjóra og nú forsætisráðherra í að lýsa gæðum á ímynd byggingarlistar með fortíðardýrkun, finnst  mér ég hafi séð okkar engin ímyndaðan “prins” í álögum – manninn sem ekki var í sambandi við þá menningu sem hann ætlaði sér að stjórna.  Svo hugsaði ég með mér; nei, nú hefði verið of langt gengið.  Engum hefði dottið slíkt í hug – þetta væri jú 1. apríl.

Einræðistilburðir stjórnarherra nútíðarinnar eru mér því mikil vonbrigði, því það að setja í forsæti lausnir húsateiknara fortíðarinnar á þörfum hennar og óskum, gerir lítið út þörfum, óskum og metnaði nútímamannsins, sem horfir fullur trausts til framtíðarinnar og möguleika hennar. Við heyrum ekki mikið í þeim sem hefðu viljað mótmæla einræðisherrum stríðsáranna á fyrrihluta síðustu aldar, en virkilega! – þetta eru einræðistilburðir, byggðir á veikri sjálfsmynd og vanþekkingu á menningu þjóðarinnar, ekki síður en vanþekking á því hvert menningarstig vestrænna ríkja er almennt á þessari nýju öld.  Nú þagna fussarar og sveijarar samtíðar okkar, flestir sem telja sig einhvers megnuga og tala niður til frelsis nútímafólks, lifnaðarhátta þeirra og gilda.  Allt á þeirri forsendu að heimur versnandi fari og að alls ekki sé hægt að treysta þessum menningarvitum fyrir því hvernig umhverfi okkar verði í framtíðinni.  Þá er líka bent á – “sjáið, hvað var gert” á tímum Corbusier (Plan Voisin, Paris 1925), eða með “Brutalisma” í arkitektúr (tímabils sjónsteypu og múrsteins frá ca. 1949 – 1972, en lengur í austur Evrópu kalda stríðsins).  Ábending; annað dæmið er gert á óvissutímum fyrir um 90 árum, við enda heimsstríðs, á tíma menningarbyltinga og í undanfara heimskreppu, en hitt sem skoðun á tæknilegum möguleikum efnis, sem áður var að mestu óþekkt og var á hátindi sínum fyrir um 50 árum.  Engum teldist í dag þessar hugmyndir eðlilegar til að leysa þarfir eða óskir samtíma okkar.  “Perestroika” arkitektúrs hófst ekki fyrr en upp úr 1990, en umhverfi arkitekta í hinum stóra alþjóðlega heimi okkar, er allt annað en áður hefur þekkst (Perestroika – ísl. þýðing;  Endurskipulagning/ Endurbygging). Allt er nú hægt og það er gert, víða um heim, til að auðga manns andans og bjóða upp á upplifelsi í hinu byggða umhverfi.

Einræðistilburðir nútíma stjórnandans, embættismanns eða pólitíkus, verða dæmdir af þegnum nánustu framtíðar.  Það versta er, hvað þeir geta haft neikvæð áhrif á möguleika fólks til framþróunar í millitíðinni. Kynslóð nútímans verður dæmd af verkum okkar, ekki forfeðra okkar.  Við erum að byggja söguna, en ekki einungis lesendur hennar og áhorfendur.  Megum við hafa burði til, að horfa með sjálfstrausti til framtíðarinnar með púlsinn á því hverjir draumar okkar, þarfir og óskir eru og með þori til að skilja eftir okkur arfleifð þess samfélags sem við nú erum.

Á endanum langar mig til að vísa á ágætan fyrirlestur um þetta efni.  Þar er gefið til kynna, hvernig almenningur hefur nú í fyrsta sinn möguleika á því að hafa áhrif á arkitektúr samtímans.  Með þeim hætti má ætla að arkitektar muni nú hanna nýja framtíð, sem er verulega frábrugðin því sem við höfum þekkt hingað til.

 

TED Book: The Future of Architecture in 100 Buildings   

by Marc Kushner

https://www.ted.com/

Through his unique position at the crossroads of architecture and social media, architect and Architizer.com founder Marc Kushner highlights 100 buildings, and the questions they seem to ask of us: How can we live smaller? Can a building breathe? With stunning photography and stories of architectural wonder from across the globe, The Future of Architecture in 100 Buildings illustrates the rapidly evolving world of architecture in the digital age.

Það sem þetta þýðir er, að frekar en að skoða stílbyggði forvera sinna, nýta arkitektar og borgarhönnuðir sér nú frekar aðferðafræði, sem byggir á möguleikum tölvutækninnar, til þess að búa til upplifun fyrr notandann.

 

Ívar Örn Guðmundsson

NEXUSarkitektar

Share this Post

Comment

Tags